Draumur
6.7.2009 | 20:49
Eiginkonan lá framá rúmbríkina hjá mótorhjólamanninum, lágvært suðið í öndunarvélinni og pípið í monitorunum var svæfandi og fljótlega festi hún svefn, þrátt fyrir óþægilega stellingu. Hana fór að dreyma um liðnar stundir og draumar hennar tóku hana allt aftur til fyrstu kynna þeirra hjóna. Í svefninum laumaðist fram bros á varir hennar. Svo dökknuðu draumarnir og brosið hvarf. Hún var stödd í svarthvítri veröld þar sem að napur vindur gnauðaði, ein með litlu stúlkuna þeirra á handleggnum og lemjandi rigningin meiddi hana í framan. Hún reyndi að fremsta megni að skýla litlu stúlkunni fyrir vindinum og regninu en orkaði það ekki. Hún var að bugast og féll niður á hnén í mjúka moldina. Fyrir framan sig sá hún legstein. Eldingarblossi lýsti hann upp og hún sá áletrunina á honum. Það var nafn mannsins hennar, hvíl í friði ástin mín, stóð fyrir neðan. Hún leit á dagsetninguna á legsteininum og í draumnum fann hún til mikillar undrunar. Dagsetningin var mörg ár fram í tímann? Hún stóð upp, er þetta eitthvað tákn, sagði hún upphátt, hún sperrti höfuðið upp í vindinn og svartan himininn og kallaði af lífs og sálarkröftum "Er þetta eitthvað tákn"? Hún fann að hönd var lögð á öxl hennar og leit snöggt við, svo snöggt að hún missti nær því litla stúlkubarnið. Þarna stóð hann og grænblá augu hans horfðu svo brosmild í augu hennar. Ertu, ertu dáinn? Spurði hún hann titrandi rómi, ertu farinn frá mér ástin mín? Hún fann tárin byrja renna niður kinnarnar. Innst inni fann hún að þetta var draumur en hún vildi ekki stöðva flæðið, hún vildi láta sársaukann fljóta fram. Ertu dáinn frá mér og litlu stúlkunni okkar elsku ástin mín? Mótorhjólamaðurinn horfði beint í augu hennar og brosið hans fallega vék fyrir áhyggju svip. Hún fann tak hans á öxlinni herðast eins og hann væri að halda sér föstum. Halda sér svo að hann ekki sogaðist upp í vindinn og regnið og hyrfi að eilífu á braut. Munnur hans kipraðist eins og hann væri að reyna að segja eitthvað en það komu engin orð. Augu hans viku ekki af henni en hún sá hann næstum því ekki fyrir tárum. Hún fann að takið á öxlinni linaðist aðeins og hún sagði lágum rómi "ekki fara ástin mín, ekki fara frá okkur, ég er ekki viss um að ég geti lifað án þín, elskan mín" Hún grét. Mótorhjólamaðurinn lét höndina renna létt niður öxlina á henni og niður á bringuna. Hann lagði flatann lófann henni í hjartarstað. Já ástin mín, sagði hún, þú munt alltaf vera lifandi í hjartanu mínu. Hún horfði á þennan stóra sterka mann síga hægt niður á hnén og taka varlega um höfuð litlu stúlkunnar. Hann beygði sig fram og kyssti það ofurvarlega. Hann leit upp á fallegu konuna sína og um andlit hans fóru sársaukabylgjur. Það breyttist allt í einu landslagið í draumnum og hún var stödd á gatnamótum á einhverjum sveitavegi. Hún sá mótorhjól koma keyrandi í rigningunni og án þess að sjá það greinilega, vissi hún að þetta var maðurinn hennar. Hún leit í hina áttina og þar sá hún bíl koma keyrandi á miðri götunni. Almáttugur, það á eftir að verða slys hér ef þessi bíll hægir ekki á sér, hugsaði hún. Á sama augnabliki gerðist það óumflýjanlega. Konan á bílnum keyrði út á gatnamótin og beint inn í hliðina á mótorhjólinu. Eiginkonan stóð við hliðina á þessu öllu og það var eins og að horfa á bíómynd sýnda í slow motion þar sem að maðurinn hennar sveif upp í loftið og skall efst í framrúðuna á bílnum og féll svo í götuna fyrir aftan hann.
Það var þrifið harkalega í öxlina á henni og hjúkrunarkonan hristi hana úr draumnum og inn í heim hinna lifandi. Fyrirgefðu sagði hjúkrunarkonan afsakandi, þú varst bara að dreyma og þú hljóðaðir svo hátt í svefninum að ég bara varð að vekja þig. Martröð? Eiginkonan var titrandi og rennsveitt, já stundi hún upp, þetta var sko heldur betur martröð. Hún kyngdi munnvatni en það var ekki nóg til að væta þurran hálsinn. Slakaðu á , sagði hjúkrunarkonan, ég skal ná í vatn fyrir þig. Takk, sagði eiginkonan, takk fyrir það.
Jac Norðquist
Athugasemdir
Takk Jac, þetta er hugljúft og mistískt.
Marta Gunnarsdóttir, 6.7.2009 kl. 22:55
Þetta höfðar til mín.... og samt er þetta að mestu draumur eða martröð.
En þetta er ágætlega gert..... manni er haldið við efnið.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 7.7.2009 kl. 09:26
Takk fyrir frábær lesning!!!!
Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 11.7.2009 kl. 22:52
Takk Bói.. þetta er alveg frábært... lifi mig allt of mikið inní þetta!
Elva Baldursdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 22:41
glæsilegt :)
Sæmi frændi (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.