Dráttarbíll
17.4.2009 | 07:44
Lögreglumennirnir kláruðu sígaretturnar og biðu eftir dráttarbílnum. Þeir stóðu hnípnir í ískaldri rigningunni sem ekkert lát var á. Báðir voru orðnir holdvotir svo það var til lítils að bregða sér inn í bílinn, hann myndi bara verða allur í móðu og vibba. Þeir þurftu ekki að bíða lengi eftir dráttarbílnum. Bílstjórinn var ekki lengi að draga mótorhjólið upp úr skurðinum með áfestum krananum og lét það síga varlega niður á pall dráttarbílsins. Hann bakkaði síðan dráttarbílnum að bíl konunnar og krækti í hann og lyfti framhjólunum upp frá jörðinni og dró hann þannig af slysstað. Lögreglumennirnir strengdu borða utan um bíl gamla mannsins til að gefa öðrum vegfarendum til kynna að lögreglan vissi um málið svo fólk væri ekki að hringja inn tilkynningar um bilaðan bíl í kantinum. Dráttarbílstjórinn ætlaði svo að koma síðar um kvöldið eða snemma næsta morgun til að sækja bílinn. Hann renndi í burt og gat ekki annað en brosað með sjálfum sér. Lögreglan hafði gleymt að biðja hann um að sópa upp glerbrotunum. Nú lenti það á þeim.
Lögreglumennirnir veittu því athygli á sömu stundu og brosið laumaðist á andlit dráttarbílstjórans að þeim hafði láðst að biðja hann um að þrífa upp glerbrotin. Sá eldri bölvaði í sand og ösku. Hann var ekki vanur að bölva upphátt svo að sá yngri leit hissa á hann. Svona svona sagði hann, ég næ bara í kústinn, þetta tekur ekki langa stund. Hann gekk til verks með það sama. Sá eldri gat ekki annað en brosað að klaufaskapnum í þeim, fjárans kjánaskapur. Sá yngri sópaði af miklum móð og náði að klára þetta á met tíma. Þeir litu svo yfir vettvanginn og voru sáttir. Það var ekki að sjá að þarna hefði orðið hræðilegt slys og hugsanlega tvö mannslát fyrir örstuttu síðan. Það voru bara tvö lítil gúmmíför eftir dekk mótorhjólsins og engin bremsuför eftir bíl konunnar. Meira að segja blóðið úr mótorhjólamanninum var löngu skolað burt af miskunnarlausri rigningunni. Sá eldri settist inn í lögreglubílinn og slökkti á forgangsljósunum og setti bílinn í gang. Hann skrúfaði upp miðstöðina. Hann leit í spegilinn og þá fyrst tók hann eftir því að konuna vantaði. Hann snéri sér snöggt við og hváði. Sá yngri settist inn í bílinn í sama mund og leit svo aftur í. Bíddu, hvar er konan? Sá eldri yppti öxlum, hef ekki hugmynd, ég varð ekkert var við að hún hefði farið eitt eða neitt. Þeir rýndu báðir út í rigninguna en það var ekkert að sjá. Þeir keyrðu rólega af stað og svipuðust um eftir henni. Hún virtist ekkert í sjokki og alls ekki neitt slösuð svo henni hefur bara leiðst biðin og lagt af stað heim. Erum við ekki með addressuna? Spurði sá yngri. Jú addressan hennar er hér í skýrslunni, hann leit snöggt á klemmubrettið með skýrslunni og fann addressuna. Hún býr í miðborginni svo að ekki hefur hún ætlað sér að ganga rúmlega 15 kílómetra, við skulum svipast eftir henni við strætóstoppistöðvarnar hér neðar við sveitaveginn. Þeir brunuðu af stað. Þeir höfðu auðvitað enga hugmynd um að hún hefði gengið þennan stutta spotta að húsi fyrrum kærasta síns.
Vinkona Eiginkonunnar kom keyrandi inn heimkeyrsluna og það vældi í dekkjunum þegar hún negldi niður. Það mátti engu muna að hún keyrði inn í útidyrahurðina. Hún stökk út úr bílnum og hljóp inn í húsið þar sem hún fann vinkonu sína liggjandi með litlu stúlkuna á leikteppinu inni í stofu. Ég er komin stundi hún upp og hjartað hennar barðist í brjóstinu. Eiginkonan stóð upp frá litlu stúlkunni og þurrkaði sér um tárvot augun. Takk vina, sagði hún. Ég er bara í svo miklu rusli. Mér skildist á hjúkrunarkonunni sem hringdi áðan að maðurinn minn hefði verið keyrður niður á mótorhjólinu sínu á leið heim úr vinnunni og það væri tvísýnt um líf hans. Ég verð að fara niður á spítala og og... rödd hennar brast. Hún hristist öll af niðurbældum ekka. Svona svona, sagði vinkonan, þetta verður allt í lagi ha? Drífðu þig bara niðureftir og ég verð með litlu stúlkuna og þú tekur bara þinn tíma. Maðurinn minn kemur bara hingað á eftir með drengina og við sofum bara hér í nótt eða bara eins lengi og þú þarft á að halda. Drífðu þig bara og hafðu engar áhyggjur af stúlkunni, við bara reddum þessu. Eiginkonan tók utan um vinkonu sína og kreisti hana fast í faðm sér. Takk, þú ert bara dásamleg. Þær horfðust í augu og báðar vissu að þær yrðu vinir fyrir lífstíð. Eiginkonan brá sér í jakka og létta sandala og settist út í bílinn sinn. Hún var ekki nema rúmlega tíu mínútur að keyra niður á spítala. Það var ótrúlega lítil umferð miðað við þennan tíma dags, hvort sem það var rigningunni um að kenna eða einhverju öðru.
Athugasemdir
takk
Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 17.4.2009 kl. 15:16
Þetta er fínt.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 17.4.2009 kl. 18:44
Flott. Ég bíð ....
Marta Gunnarsdóttir, 17.4.2009 kl. 20:33
Hmmm....
Jófó (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.