Gangan í rigningunni

Konan gekk eftir miðjum veginum, ískaldri rigningunni virtist ekkert linna, hún smeygði höndunum inn undir síðan jakkann og hálf faðmaði sjálfa sig. Kuldahrollur fór um kroppinn hennar og hún beit saman jöxlunum. Hugur hennar tók ekkert eftir umhverfinu heldur einbeitti sér að verkefninu sem hún var búin að koma sér upp. Enginn djöfuls fokking karlmaður skyldi nokkru sinni hafa hana að fífli aftur. Það var kominn tími til að taka málin í sínar hendur. Hún keyrði höfuðið ofan í bringu og gekk hraðar. Það var að færast yfir hana einhver dásamleg ró, ró manneskju sem hefur tekið einræna ákvörðun og trúir á hana. Hún fann fyrir þyngd lögregluskammbyssunnar í veskinu. Hún brosti.

 

Sjúkrabíllinn kom að lokum þar sem að lögreglumennirnir stóðu og reyktu við hlið lögreglubílsins. Þeir fylgust þögulir með þegar sjúkraflutningamennirnir tóku út börurnar og tosuðu þær að líki gamla mannsins. Með samhæfðum hreyfingum tóku þeir líkið og settu það í silki svartan líkpokann og renndu honum upp. Þeir tóku það svo, lögðu varlega á börurnar og spenntu það niður með appelsínugulum ólum. Lögreglumaðurinn ,sá yngri, furðaði sig á því að þeir skyldu ekki reyna hjartastuðtækið eða einhverjar lífgunartilraunir á líkinu. Hann leit spurnar augum á þann eldri sem eins og fyrir einhverja náðargáfu, skildi spurnina í augum þess unga. Sko, sagði hann, ég sagði þeim áðan að augasteinarnir í gamla manninum voru ekki samhæfðir, ég veit ekki hvort þú tókst eftir því en augasteinninn í hægra auganu var að fullu út þaninn meðan sá vinstri var saman dreginn. Það bendir eindregið á alvarlegt heilablóðfall. Þegar þú svo byrjaðir að hjartahnoða hann, þá hefur blóðið spýst út úr gúlpinum sem rifnaði á heilaslagæðinni og endanlega stútað þeim gamla, ef það hefði verið einhver von eftir það, þá var henni eytt með því að rifbeinsbrjóta hann og gegnumgata lungun í aumingjans hræinu. Sá eldri spýtti góðri slummu út úr sér og starði stíft á þann yngri og beið eftir viðbrögðum. Þau létu ekki standa á sér því hann greip um magann, beygði sig í keng og ældi á rennvota götuna. Sá eldri kláraði sígarettuna og fleygði henni í ælupollinn. Komdu, þetta verður allt í lagi. Hann náði í þurrkur inn í lögreglubílinn og rétti þeim yngri. Þurrkaðu þér og klárum þetta leiðinda mál hérna. Hvorugur veitti því athygli að konan sat ekki lengur í aftursæti lögreglubifreiðarinnar. 

Hjúkrunarkonan gekk hröðum skrefum fram á vaktherbergið með glærann plastpokann í annarri hendinni en símtæki í hinni. Hún lagði símtækið frá sér,  opnaði svo pokann og hellti innihaldinu á borðið. Veski, sími og lyklar mótorhjólamannsins ultu úr pokanum og niður á plastklædda borðplötuna. Síminn var brotinn og blautur svo hún snéri  sér að veskinu. Hún opnaði það og fann ökuskírteini mótorhjólamannsins. Þarna starði hann á hana gegnum svarthvíta passamynd, örlítið brosandi og hallaði höfðinu örlítið til vinstri á myndinni. Dáleidd horfði hún í augu hans þar til hönd hennar byrjaði að titra örlítið. Þetta andlit líktist alls ekkert bólgnu og blóðugu andlitinu sem hún hafði séð inni á skurðarborði. Hún hafði einmitt staðið fyrir aftan svæfingarlæknana þegar þeir tóku af honum súrefnisgrímuna úr sjúkrabílnum og tengdu hann við súrefnið á spítalanum. Þetta karlmannalega andlit með broshrukkum kringum augun og dáleiðandi brosið líktist manninum á skurðborðinu alls ekkert. Þá tók hún eftir litla en áberandi örinu við annan augnkrókinn á myndinni. Hún hafði einnig tekið eftir þessu sama öri á mótorhjólamanninum. Þetta var þá sami maðurinn, hún fann fyrir óútskýrðum trega í brjósti sér. Hún snéri sér að tölvunni sem sat á skrifborðinu og fletti upp nafninu hans í símaskránni. Það voru tvö nöfn skráð fyrir símanúmerinu sem kom upp. Nafnið sem stóð í ökuskírteininu fyrir framan hana og svo kvennmannsnafn. Hann var þá giftur. Úff, það yrði ekki auðvelt að hringja í konuna hans og segja henni hvað hefði komið fyrir manninn hennar. Hún tók upp símtólið og valdi númerið.

Það var stutt eftir að húsi fyrrum kærasta hennar og hún herti gönguna. Hann varð að vera heima hugsaði hún. Helvítis fokking fíbblið varð að vera heima. Hún var komin að grænmálaðri hurðinni og starði á hana. Það virtist augnablik eins og það væri heil eilífð síðan hann sló hana og henti henni út í götusteininn. Hún fálmaði eftir þungri skammbyssunni í veskinu og dró hana upp. Hún kunni ekkert með vopn að fara en hafði séð nógu margar krassandi bíómyndir til þess að vita að það væri eitthvert öryggi á öllum skammbyssum. Hún fann lítinn till sem hún dróg til baka og það kom smellur og lítill rauður punktur gaf til kynna að öryggið væri ekki lengur á. Hún miðaði byssunni á miðja hurðina og sparkaði svo fast með hægri fæti í hurðina. Svo beið hún með byssuna á lofti eftir því að helvítis drullumörðurinn kæmi til dyra. Djöfull fokking ætlaði hún að skjóta helvítis tussufésið af honum og svo var hún ákveðin í að pumpa restinni af skotunum í helvítis fokking klofið á fávitanum. Hún var næstum því búin að hleypa af skoti í hurðina því hún lifði sig svo inn í atburðarásina sem fór fram í kollinum á henni. Helvítis fokkin auminginn að drulla sér ekki til dyra.

Hún sparkaði aftur í hurðina.

Jac Norðquist

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Takk takk vá spennan er að drepa mann endilega haltu áfram

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 9.4.2009 kl. 00:16

2 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Já, þetta er alltaf spennandi, ég bíð,,, vona að krakkarnir séu þæg og prúð svo þú getir haldið áfram með söguna. (Auðvitað bara að hugsa um sjálfa mig núna)

Marta Gunnarsdóttir, 9.4.2009 kl. 08:54

3 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég er búin að lesa nokkra kafla og finnst þetta spennandi. Einu sinni var ég á námskeiði um gerð kvikmyndahandrita og á nokkur slík, en þetta var smá útúrdúr, en kennarinn Michael Casale sagði Keep  it simple og lika ekki skrifa um eitthvað sem þú þekkir ekki.  Ég fæ enga svoleiðis tilfinningu þegar ég les skrifin þín, mér finnst þú þekkja vel til málanna.

Spennusögur eru mitt uppáhald en auðvitað las ég til að byrja með skrifin þín afturábak, hehehe.

En þetta er fínt hjá þér.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 15.4.2009 kl. 11:41

4 Smámynd: Jac G. Norðquist

Takk fyrir falleg orð kæra fólk. Það er gríðarlega gaman að fá svona falleg ummæli. Spáið í hve mikið þetta hr´s hefur glatt mig, hvernig hlýtur Nóbelskáldinu okkar að hafa liðið ??? Úff  

Bestu kveðjur

Jac Norðquist

Jac G. Norðquist, 15.4.2009 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband