Rigning

Köld rigningin féll lóðrétt niður á malbikið. Í fjarlægð heyrðist í umferðinni á hraðbrautinni þar sem að fólk var á leið heim eftir vinnudaginn. Trukkar í bland við fólksbíla drunuðu í sitthvora áttina og sumum lá meira á en öðrum. Það var engin asi á litla sveitaveginum við krossgötugatnamótin, þar sem að lögreglan var að hreinsa upp glerbrot eftir alvarlegt mótorhjólaslysið. Konan sat aftur í lögreglubílnum og var að gefa skýrslu. Titrandi bað hún lögregluþjóninn um að fá að stíga aðeins út úr bílnum og fá sér sígarettu til að róa taugarnar. Lögreglumaðurinn dró fram litla samanbrotna regnhlíf og rétti konunni aftur í, gerðu svo vel, það er hellirigning ennþá. Hún tók við regnhlífinni og steig út úr bílnum. Það var svolítið basl að halda á regnhlífinni meðan hún kveikti í rettunni en það hafðist og hún dró ofan í sig dásamlegan reykinn og passaði sig á að fylla vel út í lungun og hélt svo aðeins niðri í sér andanum til þess að nýta hvert einasta milligramm af sætum reyknum.

Tvær sígarettur gufuðu upp á ótrúlega skömmum tíma og hún gerði sig klára að setjast inn í bílinn. Hún leit snöggt í kringum sig og rak þá augun í bíl gamla mannsins í vegkantinum þar skammt frá. Eitt augnablik fannst henni hún sjá móta fyrir mannveru sem hékk fram á stýri bílsins en hundsaði það og settist inn í lögreglubílinn.

Sjúkrabíllinn keyrði hratt en samt ekki á útopnu, inn í borgina. Bílstjórinn hægði vel á sér á öllum umferðarljósum og gætti fyllsta öryggis þegar hann fór yfir á rauðu. Það var engin ástæða til þess að vera á "yfir-forgangi" því að eins og þeir voru búnir að sjá, átti þessi aumingjans mótorhjólamaður engan séns á að sleppa lifandi úr þessar raun. Hann leit snöggt aftur í bílinn og sá gráfölt andlit mannsins bak við súrefnisgrímuna. Blessaður kallinn, það yrði ömurlegt fyrir fjölskylduna hans að fá fréttirnar. Bílstjórinn hristi höfuðið og það setti að honum hroll, aldrei gat hann vanist því að keyra með dauðadæmt fólk. Hann fór að íhuga önnur störf, þetta var farið að fara í taugarnar á honum, öll þessi mannlega eymd og sársauki. Hann kom að spítalanum og setti sjúkrabílinn í bakkgír og bakkaði inn að skýlinu þar sem að læknateymið beið eftir mótorhjólamanninum.

Henni langaði strax í aðra sígarettu en þorði ekki að biðja lögregluna aftur um leyfi. Þeir héldu áfram að yfirheyra hana og voru duglegir að pumpa út úr henni upplýsingar sem henni fannst ekki koma því neitt við að hún hafði keyrt á mótorhjólamanninn. Jú, hún hafði verið að rífast við kærastann sinn, hvað kom það þeim við svosem? Hún svaraði þeim eftir drykklangar þagnir og með semingi. Henni leið ekki vel og skildi ekki afhverju hún mátti ekki bara fara heim eða í það minnsta upp á spítala til að athuga hvort það væri ekki alveg í lagi með hana sjálfa. Fokk, djöfuls fokking fokk sagði hún upphátt til þess að setja punktinn yfir hugsanir sínar. Lögreglumennirnir tveir snéru sér forviða að henni og sögðu báðir í einu "Ha"? Hvað ertu að segja? Hún eldroðnaði þegar hún áttaði sig á hvað hafði hrotið af vörum hennar og afsakaði sig með að hún væri að líða útaf vegna álags. Er ekki bara hægt að ljúka þessu svo ég geti farið upp á spítala, mér líður bara ekki vel, þú skilur!?

Rigningin færðist enn í aukana 

Jac Norðquist

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Einarsdóttir

Hlakka til að fylgjast með og lesa framhaldið.  kv. frá Köben

Lilja Einarsdóttir, 25.3.2009 kl. 17:00

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Búinn að lesa

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.3.2009 kl. 06:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband