112

Hún sat bogin í keng við stýrið og hnúarnir lömdu fast á mælaborðið. Hvað í helvíti kom fyrir? Hún var ekki alveg búin að átta sig á atburðum síðustu sekúndna. Keyrði einhver fáviti á mig? Hún beit saman jöxlunum og hætti að berja hnúunum á mælaborðið, af hverju er ég að berja mælaborðið, hugsaði hún hissa?

Hún leit upp og út um brotna framrúðuna. Hún sá bara grasið á enginu hinumegin við veginn. Hún leit bæði til hægri og vinstri en sá ekkert óvenjulegt. Það var jú bíll stopp í kantinum en hann var of langt í burtu til þess að hafa getað keyrt á hana. Hún opnaði varlega hurðina og steig út í grenjandi rigninguna. Gekk svo hægum skrefum fyrir framan bílinn og skoðaði skemmdirnar. Stuðarinn var alveg í klessu og bæði framljósin möskuð. Það var beygla efst á toppnum á bílnum og framrúðan var brotin. Hún horfði hissa á skemmdirnar. Hvað í fjáranum hafði eiginlega gerst? Hún fór smámsaman að ranka úr þessum doða sem hún var í og átti rigningin mikinn hluta í því. Hún þrengdi sér ísköld niður hálsmál hennar og framkallaði kuldaskjálfta. Helvítis fokk, hugsaði hún en fór að líta betur í kringum sig til að reyna að finna helvítis sökudólginn að skemmdunum á bílnum. Þá rak hún augun í klesst mótorhjólið sem lá nánast í hvarfi við vegöxlina. Hún gekk yfir að mótorhjólinu og svipaðist um eftir ökumanni hjólsins en fann hann ekki við hjólið. Ráðvillt horfði hún í kringum sig, hafði hann var labbað í burtu sisvona og ekki hirt um að athuga hvort hún væri stórslösuð í bílnum? Helvítis aumingjar, helvítis karlmenn. Blóðið sauð í henni þegar hún áttaði sig á því hversu mikið hún hataði karlmenn þessa stundina. Hún leit í átt að bílnum þar sem að hún sá móta fyrir manni við stýrið. Sko, ekki datt fíflinu í hug að koma út og aðstoða hana. Allt í einu krossbrá henni við sírenuvæl. Fokk? hvaða dómdagshávaði var þetta? Hún snarsnéri sér og sá að það var sjúkrabíll alveg við bílinn hennar og hann var með vælandi sírenur. Guð sé lof hugsaði hún, loksins einhver að koma að kíkja á mig og athuga hvort ég sé ómeidd. Hún leit niður eftir líkama sínum en það bar ekki á öðru en að hún væri í lagi. Ekkert blóð seytlaði út svo að hún yrði þess vör. Hún horfði á sjúkraflutningamennina rífa upp afturhurðina á sjúkrabílnum og ná í tösku með tólum og tækjum. Þeir þustu svo aftur fyrir bílinn hennar og beygðu sig í hvarf? Ha? Djöfuls tillitsleysi að tékka fyrst á bílnum hennar og kíkja ekki á hana ? Hún var ekki alveg að fatta þessa gaura svo hún gekk yfir til þeirra.

Blóði fraus í æðum hennar þegar hún sá mótorhjólamanninn liggja í götunni og horfa brostum augum upp til himna. Ósjálfrátt leit hún líka upp í grámyglulegan himininn. Þvílíkur dagur til að deyja á laust niður í huga hennar. Hún krosslagði handleggina og setti þumalputta hægri handar upp í sig og nagaði hann varlega. Guð minn góður, guð minn fokking góður, hvað hef ég gert!

 

Einn einn tveir góðan dag get ég aðstoðað?

Það var þungur andadráttur í símanum en enginn svaraði fyrirspurninni. Símadaman spurði aftur og lagði vel við hlustir. Hún var alvön að fá inn símtöl þar sem að viðkomandi var svo illa farinn að hann eða hún gat ekki tjáð sig á skiljanlegan hátt. Hún fékk líka inn fullt af gabbsímtölum og var orðin þjálfuð að greina á milli gerfi stuna og alvöru stuna. Hún reyndi að greina umhverfishljóðin sem best hún gat, meðan hún vann á lyklaborð tölvunnar sinnar. Hún var búin ð setja símtala-rekjarann á og beið núna eftir því að það kæmi rauður punktur á landakortinu í tölvunni. Þetta var símtal úr farsíma og eftir augnablik byrjaði að hellast inn upplýsingar um númerið. Það var skráð á mann fæddan 1939 búsettan í útjaðri borgarinnar. Rauði punkturinn var komminn og blikkaði rólega á skjánum. Hún sendi skilaboð á sjúkrabíl 508 því hann var næstur rauða punktinum.

Sjúkrabíll 508 svarar, við setjum forgangsljós á og verðum á svæði 026 eftir um það bil 2 mínútur.

Andadrátturinn var þagnaður í símanum en símtalið var ekki slitið.

 

Þarna, sagði aðstoðabílstjórinn á sjúkrabíl 508, þarna fyrir aftan bílinn liggur einhver. Þeir stoppuðu sjúkrabílinn og náðu í sjúkratöskurnar aftur í bílinn. Sá yngri var fyrr að manninnum sem lá í götunni. Það vætlaði blóð úr eyrum hans og brostin augun störðu upp í himininn eins og hann væri að rannsaka hvaðan þessi grenjandi rigning kæmi. Sjúkraflutningamaðurinn vann fumlaust að því að fletta mótorhjólajakkanum frá bringu mannsins meðan hinn skorðaði höfuð hans og athugaði hvort að öndunarvegurinn væri opinn. Hann losaði restina af hjálminum frá höfðinu og hélt svo með hanskaklæddri hendinni undir mjúkann mölbrotinn hnakkann á manninum.

Það er staðfest hjartastopp, sagði sá yngri og gerði hjartastuðtækið klárt. Hann stillti það og tengdi díóðurnar á bringu mannsins. Hinn var búinn að setja mjúkan höfuðpúða undir skaddaðann hnakkann og annan undir hálsinn. Ég er klár fyrir stuðtæki sagði hann og sá yngri hleypti á straumskammti. Það fóru veikir kippir um líkama mannsins og þeir biðu nokkur sekúndu brot áður en sá yngri sagði "annar skammtur eftir 3,2,1" og hann hleypti á öðru raflosti. Aftur fóru kippir um líkama mannsins og augu hans rúlluðu í höfðinu. Sjúkraflutningamennirnir héldu niðri í sér andanum.  "Fullur styrkur eftir 3,2,1" og sá yngri hleypti á fullum skammti af rafstuði sem fór eins og elding gegnum hjarta mannsins og herpti það saman. Þegar rafmagnið sleppti takinu, var hjartað eins og hikandi í örfá sekúndubrot en tók svo öflugt slag, og annað.

Við höfum lífsmark sagði sá yngri. Hann lá á hnjánum hjá manninum meðan hinn fór og náði í sjúkrabörurnar í bílinn. Það var ekki fyrr en þá að þeir sáu náföla konuna standa og stara á þá í þögulli örvæntingu. Lifir hann? Spurði hún varlega. Þeir litu báðir á manninn á götunni og sá yngri svaraði "Já já hann á alveg eftir að meika það" En hugsun hans var ekki á sama máli. Hann myndi tæpast ná inn á deild áður en hann væri "Flatlínu sjúklingur".

Þeir báru hann inn í sjúkrabílinn í sama mund og lögreglan og hinn sjúkrabíllinn komu á vettvang. Lögreglumaður gekk að konunni meðan annar skoðaði slysstaðinn. Það veitti enginn bílnum í kantinum neina sérstaka athygli.

Jac Norðquist  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Frábært... kemur meira?

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.3.2009 kl. 22:09

2 Smámynd: Jac G. Norðquist

Auðvitað.... :)

Jac G. Norðquist, 15.3.2009 kl. 22:44

3 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Þú ert alveg rudda penni strákur....meira sem fyrst

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 17.3.2009 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband