Færsluflokkur: Bloggar

Sá Gamli

Hann var á leið heim eftir að hafa skoðað nokkra hesta í gerði skammt frá sveitabænum sem hann ólst upp á. Það var notalegt að finna ilminn af hrossum, taði og tuggunni sem bóndinn hafði sett í trog fyrir hestana. Það var auðvitað algjör óþarfi að setja tuggu í trogið þar sem að sprettan á túnunum var í góðu lagi eftir mildan vetur. Bóndinn hélt hinsvegar svo mikið upp á þessar fallegu skepnur að hann mátti til með að spilla þeim örlítið. Gamli maðurinn spjallaði við bóndann um daginn og veginn og klappaði hrossunum. Hann var of slæmur í mjöðminni til þess að fara á bak auk þess var farið að hellirigna. Það setti að honum hroll og hann ákvað að drífa sig bara heim og kveikja upp í eldstæðinu. Þótt það væri komið vor í loftið var ennþá kaldur garri að norðan. Ansans Íslandslægðirnar hugsaði hann með sér og kvaddi bóndann með virktum og gekk að bílnum sínum.

Honum var alveg sama þótt hann lyktaði af hrossum og taði en skipti samt út stígvélum sínum fyrir mokkasínur áður en hann settist inn í bílinn. Hann vildi ekki skíta út mottuna sem hann hafði þrifið svo vel kvöldið áður.

Þegar hann settist inn í bílinn, fann hann fyrir stuttum en öflugum svima. Þar sem hann hafði fengið hjartaáfall fyrir tveim árum síðan, var hann alltaf á varðbergi gagnvart líkamlegum einkennum af hverju tagi sem er. Hann beið aðeins með það að setja bílinn í gang og fiskaði upp farsímann sinn og lét í sætið við hliðina á sér. Hann tók aftur upp símann og til öryggis, stimplaði hann inn 112 en ýttu ekki á sendingahnappinn, lagði svo símann aftur á farþegasætið.

Sviminn kom ekki aftur svo hann setti bílinn í gang og keyrði af stað. Þegar hann kom svo út á sveitaveginn, fann hann allt í einu lykt af appelsínum, svo megna að hann leit ósjálfrátt í kringum sig í bílnum. Hann mundi alls ekkert eftir því að hafa keypt appelsínur og gleymt þeim í bílnum. Honum fannst meira að segja appelsínur hálf óætar vegna þess að hann átti erfitt með að þola sýruinnihaldið í þeim. Appelsínulyktin hvarf jafn skyndilega og hún hafði komið og hann keyrði áfram eftir fáförnum sveitaveginum. Það hellirigndi og útsýnið út um framrúðuna fór þverrandi. Rúðuþurrkurnar höfðu varla við vatnsflæðinu.´

Skyndilega fékk hann hausverk, svo öflugan að honum varð flökurt, hann greip með hægri hendi um ennið eins og hann ætlaði að þrýsta höfuðverknum inn aftur. Hann stundi hátt, þetta var ekkert eðlilegur hausverkur hugsaði hann og hjartað fór að slá hraðar. Skildi þetta vera heilablóðfall? Hann fór í huga sér yfir einkennalistann sem hann hafði reynt að læra utan af úr einhverjum bæklingi sem hann tók í apótekinu á síðasta ári. Hann fann fyrir miklum doða í hægri hendi og höfuðverkurinn magnaðist um helming. Hann hægði á bílnum og leitað eftir stað til að stöðva bílinn á. Í speglinum sá hann mótorhjól sem var komið óþægilega nærri, hann velti því fyrir sér hvort hann myndi setja mótorhjólamanninn í hættu ef hann stöðvaði of skyndilega svo hann tappaði létt á bremsuna og hægði enn meira ferðina. Hann varð að stoppa því ekki gat hann keyrt bílinn í svona ásigkomulagi.

Hann sveigði út í kantinn og Mótorhjólamaðurinn tók fram úr honum. Hann stöðvaði bílinn og byrjaði að syngja hástöfum. "Vi er røde, vi er hvide".... hann heyrði á þvoglumælginu að það var eitthvað mikið að. Hann ýtti á sendingahnappinn á farsímanum sínum og heyrði í rödd símadömunnar á neyðarlínunni. Hann reyndi að segja eitthvað en kom ekki upp orði. Hann starði út um regnvota rúðuna og sá bíl koma á fullri ferð inn á krossgatnamótin og keyra viðstöðulaust á mótorhjólið.

Hann sá mótorhjólamanninn svífa í boga upp yfir bílinn og fætur hans skullu í framrúðu bílsins og svo endasentist hann áfram, yfir bílinn í götuna bak við hann. Þar hvarf hann úr augsýn. 

Gamli maðurinn greip með dofnu hægri hendinni um bringuna á sér og fann bókstaflega hjartað hamast fyrir innan bringubeinið. Honum sortnaði fyrir augum og hann fann meðvitundina fjara út. Hann gerði lokatilraun til þess að biðja um hjálp í farsímann en heyrði sjálfan sig umla eitthvað óskiljanlegt. Hægri hendi sleppti krampakenndu takinu á bringunni og féll máttlaus niður í kjöltu Gamla mannsins. Röddin í símanum var það síðasta sem hann heyrði í þessu lífi.... halló, halló get ég aðstoðað?  

Jac Norðquist


112

Hún sat bogin í keng við stýrið og hnúarnir lömdu fast á mælaborðið. Hvað í helvíti kom fyrir? Hún var ekki alveg búin að átta sig á atburðum síðustu sekúndna. Keyrði einhver fáviti á mig? Hún beit saman jöxlunum og hætti að berja hnúunum á mælaborðið, af hverju er ég að berja mælaborðið, hugsaði hún hissa?

Hún leit upp og út um brotna framrúðuna. Hún sá bara grasið á enginu hinumegin við veginn. Hún leit bæði til hægri og vinstri en sá ekkert óvenjulegt. Það var jú bíll stopp í kantinum en hann var of langt í burtu til þess að hafa getað keyrt á hana. Hún opnaði varlega hurðina og steig út í grenjandi rigninguna. Gekk svo hægum skrefum fyrir framan bílinn og skoðaði skemmdirnar. Stuðarinn var alveg í klessu og bæði framljósin möskuð. Það var beygla efst á toppnum á bílnum og framrúðan var brotin. Hún horfði hissa á skemmdirnar. Hvað í fjáranum hafði eiginlega gerst? Hún fór smámsaman að ranka úr þessum doða sem hún var í og átti rigningin mikinn hluta í því. Hún þrengdi sér ísköld niður hálsmál hennar og framkallaði kuldaskjálfta. Helvítis fokk, hugsaði hún en fór að líta betur í kringum sig til að reyna að finna helvítis sökudólginn að skemmdunum á bílnum. Þá rak hún augun í klesst mótorhjólið sem lá nánast í hvarfi við vegöxlina. Hún gekk yfir að mótorhjólinu og svipaðist um eftir ökumanni hjólsins en fann hann ekki við hjólið. Ráðvillt horfði hún í kringum sig, hafði hann var labbað í burtu sisvona og ekki hirt um að athuga hvort hún væri stórslösuð í bílnum? Helvítis aumingjar, helvítis karlmenn. Blóðið sauð í henni þegar hún áttaði sig á því hversu mikið hún hataði karlmenn þessa stundina. Hún leit í átt að bílnum þar sem að hún sá móta fyrir manni við stýrið. Sko, ekki datt fíflinu í hug að koma út og aðstoða hana. Allt í einu krossbrá henni við sírenuvæl. Fokk? hvaða dómdagshávaði var þetta? Hún snarsnéri sér og sá að það var sjúkrabíll alveg við bílinn hennar og hann var með vælandi sírenur. Guð sé lof hugsaði hún, loksins einhver að koma að kíkja á mig og athuga hvort ég sé ómeidd. Hún leit niður eftir líkama sínum en það bar ekki á öðru en að hún væri í lagi. Ekkert blóð seytlaði út svo að hún yrði þess vör. Hún horfði á sjúkraflutningamennina rífa upp afturhurðina á sjúkrabílnum og ná í tösku með tólum og tækjum. Þeir þustu svo aftur fyrir bílinn hennar og beygðu sig í hvarf? Ha? Djöfuls tillitsleysi að tékka fyrst á bílnum hennar og kíkja ekki á hana ? Hún var ekki alveg að fatta þessa gaura svo hún gekk yfir til þeirra.

Blóði fraus í æðum hennar þegar hún sá mótorhjólamanninn liggja í götunni og horfa brostum augum upp til himna. Ósjálfrátt leit hún líka upp í grámyglulegan himininn. Þvílíkur dagur til að deyja á laust niður í huga hennar. Hún krosslagði handleggina og setti þumalputta hægri handar upp í sig og nagaði hann varlega. Guð minn góður, guð minn fokking góður, hvað hef ég gert!

 

Einn einn tveir góðan dag get ég aðstoðað?

Það var þungur andadráttur í símanum en enginn svaraði fyrirspurninni. Símadaman spurði aftur og lagði vel við hlustir. Hún var alvön að fá inn símtöl þar sem að viðkomandi var svo illa farinn að hann eða hún gat ekki tjáð sig á skiljanlegan hátt. Hún fékk líka inn fullt af gabbsímtölum og var orðin þjálfuð að greina á milli gerfi stuna og alvöru stuna. Hún reyndi að greina umhverfishljóðin sem best hún gat, meðan hún vann á lyklaborð tölvunnar sinnar. Hún var búin ð setja símtala-rekjarann á og beið núna eftir því að það kæmi rauður punktur á landakortinu í tölvunni. Þetta var símtal úr farsíma og eftir augnablik byrjaði að hellast inn upplýsingar um númerið. Það var skráð á mann fæddan 1939 búsettan í útjaðri borgarinnar. Rauði punkturinn var komminn og blikkaði rólega á skjánum. Hún sendi skilaboð á sjúkrabíl 508 því hann var næstur rauða punktinum.

Sjúkrabíll 508 svarar, við setjum forgangsljós á og verðum á svæði 026 eftir um það bil 2 mínútur.

Andadrátturinn var þagnaður í símanum en símtalið var ekki slitið.

 

Þarna, sagði aðstoðabílstjórinn á sjúkrabíl 508, þarna fyrir aftan bílinn liggur einhver. Þeir stoppuðu sjúkrabílinn og náðu í sjúkratöskurnar aftur í bílinn. Sá yngri var fyrr að manninnum sem lá í götunni. Það vætlaði blóð úr eyrum hans og brostin augun störðu upp í himininn eins og hann væri að rannsaka hvaðan þessi grenjandi rigning kæmi. Sjúkraflutningamaðurinn vann fumlaust að því að fletta mótorhjólajakkanum frá bringu mannsins meðan hinn skorðaði höfuð hans og athugaði hvort að öndunarvegurinn væri opinn. Hann losaði restina af hjálminum frá höfðinu og hélt svo með hanskaklæddri hendinni undir mjúkann mölbrotinn hnakkann á manninum.

Það er staðfest hjartastopp, sagði sá yngri og gerði hjartastuðtækið klárt. Hann stillti það og tengdi díóðurnar á bringu mannsins. Hinn var búinn að setja mjúkan höfuðpúða undir skaddaðann hnakkann og annan undir hálsinn. Ég er klár fyrir stuðtæki sagði hann og sá yngri hleypti á straumskammti. Það fóru veikir kippir um líkama mannsins og þeir biðu nokkur sekúndu brot áður en sá yngri sagði "annar skammtur eftir 3,2,1" og hann hleypti á öðru raflosti. Aftur fóru kippir um líkama mannsins og augu hans rúlluðu í höfðinu. Sjúkraflutningamennirnir héldu niðri í sér andanum.  "Fullur styrkur eftir 3,2,1" og sá yngri hleypti á fullum skammti af rafstuði sem fór eins og elding gegnum hjarta mannsins og herpti það saman. Þegar rafmagnið sleppti takinu, var hjartað eins og hikandi í örfá sekúndubrot en tók svo öflugt slag, og annað.

Við höfum lífsmark sagði sá yngri. Hann lá á hnjánum hjá manninum meðan hinn fór og náði í sjúkrabörurnar í bílinn. Það var ekki fyrr en þá að þeir sáu náföla konuna standa og stara á þá í þögulli örvæntingu. Lifir hann? Spurði hún varlega. Þeir litu báðir á manninn á götunni og sá yngri svaraði "Já já hann á alveg eftir að meika það" En hugsun hans var ekki á sama máli. Hann myndi tæpast ná inn á deild áður en hann væri "Flatlínu sjúklingur".

Þeir báru hann inn í sjúkrabílinn í sama mund og lögreglan og hinn sjúkrabíllinn komu á vettvang. Lögreglumaður gekk að konunni meðan annar skoðaði slysstaðinn. Það veitti enginn bílnum í kantinum neina sérstaka athygli.

Jac Norðquist  


Brostin augu

Á leið heim úr vinnunni, keyrði ég mótorhjólið frekar varlega. Það hellirigndi og mér var skítkalt þrátt fyrir að vera í regnbuxum og þykkri peysu undir mótorhjólajakkanum. Það eru um það bil 20 kílómetrar frá vinnustaðnum mínum og heim. Ég keyri oftast "bakleiðina" því að það er að öllu jöfnu minni umferð á þeirri leið. Ég er samt ekki viss um að hún sé neitt styttri en alveg pottþétt fljótfarnari.

Ég byrjaði aðeins að skjálfa því að kuldinn smaug inn gegnum þykkan jakkann og framkallaði hroll sem hríslaðist um kroppinn minn. Ég fór að hugsa um hvað væri í matinn og hvort konan mín hefði tekið út fisk úr frystiskápnum. Svo beindist hugsunin að litlu dóttur minni sem var rétt nýorðin 6 mánaða gömul. Ég fór að brosa gegnum kuldann þegar ég sá brosmilt falleg andlit hennar fyrir mér.

Umferðin gekk alveg ágætlega og mér miðaði vel áfram. Klukkan var rétt um hálf fjögur og það leit ekkert út fyrir að rigningin stytti upp í bráð og gott ef að hún var ekki að aukast. Helvítis leiðindaveður alltaf hreint. Ég var farinn að þrá sól og sumaryl. Áður en ég lagði af stað úr vinnunni, lá ég á netinu og skoðaði sólarlandaferðir á spottprís. Ekki það að ég hefði efni á því að fara í sólarlandaferð, spottprís eður ei. Það var bara svo notalegt að láta sig dreyma aðeins.

Ég fór að spá í síðustu ferð okkar hjóna á sólarströnd fyrir tæpum tveim árum síðan. Notalegheitin við sundlaugarbakkann og 40°c hiti. Hrein dásemd. 

Þessi hugsun náði samt ekkert að hlýja mér þar sem ég sat í grenjandi rigningunni á mótorhjólinu mínu á Dönskum sveitaveginum. Það styttist heim í hlýjuna.

 

Þú ert helvítis aumingi og ræfill, ég hata þig, ég bara helvítis djöfulsins hata þig og ógeðslega helvítis andlitið á þér og ég vil aldrei fokking sjá þig aftur helvítis aumingja viðbjóðurinn þinn !!!

Hún lamdi hnefunum fast í bringuna á manninum sem hafði rétt verið að viðurkenna fyrir henni að hann hefði haldið framhjá henni. Helvítis tussan þín hættu þessum barsmíðum, hann sló hana með flötum lófa á hægra eyrað hennar. Svona hættu hvæsti hann aftur og hrinti henni afturábak í átt að útidyrunum, ég hélt framhjá þér því þú ert bara fokking sækó-tík og átt ekki annað skilið tussan þín. Komdu þér út. Hann var farinn að öskra og hún fann ramma bjórlyktina af honum. Klukkan var rétt að verða hálf fjögur á fimmtudegi og hann var orðinn vel í því. Helvítis drykkjurútur.

Hann hélt áfram að hrinda henni aftur ábak þar til hnakkinn á henni skall á útihurðinni. Drullaðu þér héðan út þurrkuntan þín. Það er gersamlega vonlaust að ríða þér svo hverju áttu von á annað en maður haldi smá framhjá, ha , segðu mér það? Öskraði hann!

Hún titraði svo mikið af hræðslu og reiði að hún kom ekki upp orði. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem hún hafði rifist svona heiftarlega við nokkurn. Hún fann fyrir því að hafa ekki orðaforða upp á neitt annað en "Fokk" og "Helvíti"! Meðan hann var að öskra ókvæðisorðum á hana, fór hún að leita í huganum að einhverju kjarnyrtari að segja.

Helvítis tittlingurinn á þér er eins og á fokking vansköpuðu svíni, þú ert illa lyktandi svínslegur viðbjóður helvítis auminginn þinn!

Hann sló hana svo fast að hún steinlá. Lyppaðist bara niður við útihurðina og lá þar meðan hann ruddist aftur inn í húsið og náði í jakkann hennar og veskið. Hann tosaði meðvitundarlausa konuna frá hurðinni og opnaði hana. Dró síðan konuna út á stéttina fyrir framan húsið og henti jakkanum og veskinu yfir hana. Helvítis tussa hvæsti hann og sparkaði fast í síðuna á henni. Hún umlaði í meðvitundarleysinu og herptist saman. Hann rauk inn og skellti hurðinni. Helvítis tíkur, helvítis kvenfólk allar saman. Hann opnaði annan bjór og settist fyrir framan sjónvarpið og stillti á fótbolta. Djöfull var þetta allt henni að kenna. Andskotann var hún svo að kíkja í ruslið á baðinu  og finna smokkinn? Hver í fjandanum rótar í baðherbergisruslinu? Aldrei myndi hann kafa eitthvað ofan í ruslafötur á baðherbergjum. Helvítis fokking tíkin. Hann kreisti tóma bjórdósina og öskraði.

Rigningin vakti hana smámsaman og hún reyndi að standa upp. Skerandi stingurinn í síðunni fékk hana til þess að beygja sig í keng, úff. Hún varð að draga andann grunnt vegna verkjarins. Titrandi tók hún upp jakkann og veskið og fiskaði bíllyklana sína upp úr því. Hún leit snöggt í átt að lokaðri útihurðinni og safnaði saman stórri slummu af hráka í munninn og lét svo vaða á hurðina. Helvíts aumingi stundi hún upp og hrækti aftur.

Hún setti bílinn í gang og hefði reykspólað í burtu ef hún hefði kunnað það. Í staðinn snuðaði hún á kúplingunni í 7000 snúningum og ók löturhægt í burtu. Meira að segja bíllinn var á móti henni.

Hún reyndi að slaka á en titringurinn hætti ekki og augun fylltust af reiðitárum. Niðurlægingin helltist yfir hana og hnúarnir hvítnuðu á stýrinu. Bíllinn var kominn á ferð núna og hún gíraði hann upp. Hún var ekki viss um hvert hún átti að fara en varð bara að komast eitthvert í skjól svo hún gæti grátið og fengið smá útrás fyrir reiðina og gríðarleg vonbrigðin yfir smokkafundinum. Henni hafði svosem lengi grunað að hann væri að halda framhjá en alltaf þegar hún spurði hvort hann væri henni ekki trúr og tryggur, fór hann alltaf að hlægja og sagði að það væri hann svo sannarlega. Hann liti ekki einu sinni á aðrar konur hvað þá að hann væri eitthvað að sækjast eftir því að halda framhjá henni. Lyga djöfuls mörðuinn.

 

Ég reyndi að hrista af mér drungann og kuldann og hægði aðeins á mótorhjólinu þegar bíllinn fyrir framan mig bremsaði varlega. Það var greinilega gamall maður undir stýri og honum fannst óþægilegt að keyra í grenjandi rigningunni. Ég hægði meira ferðina og fór að pirrast svolítið yfir því hversu hægt sá gamli keyrði. Það var allt í lagi að fara varlega en þetta var bara of hægt að mínu mati. Ég fór að líta framar á veginn og spáði í að taka frammúr þeim gamla. Mér gafst ekki tækifæri til þess því að hann gaf allt í einu stefnuljós út í kantinn og stoppaði þar. Ég bölvaði og jók svo hraðann til þess að komast upp í eðlilegan ökuhraða á sveitaveginum og framúr gamla karlinum. Ég tók snyrtilega framúr honum og  leit svo í speglana til að fylgjast með því hvað sá gamli myndi gera.

Ég var enn að horfa í speglana þegar ég keyrði inn á krossgötu-gatnamótin.

Ég sá aldrei grátandi konuna sem keyrði yfir stöðvunarskilduna án þess að stoppa og inn í hliðina á mótorhjólinu mínu.

Ég hvorki fann höggið af bílnum eða höggið þegar líkami minn skall í götuna eftir að hafa rúllað í stórum boga yfir bíl konunnar. Hjálmurinn minn brotnaði í sundur við skellinn og flettist af mér eins og hann hefði verið eggjaskurn.

Ég fann ekki blóðið leka úr eyrum mínum eða nefi og ég sá ekki grámyglulegan himininn þar sem ég lá á bakinu í vegarkantinum.

Ég reyndi að blikka augunum því ég fann rigninguna skella á hvítunni. Ég gat ekki blikkað.

Ég fann engan sársauka.

Ég heyrði ekkert nema hjarta mitt slá.

Dúmp dúmp

Dúmp dúmp

Dúmp

 

Dúmp

Ég heyrði hjartað mitt hætta að slá og meðvitundin skreið í burtu eins og þegar maður gengst undir svæfingu á spítala.

Augu mín horfðu brostin upp í himininn.

 

Jac Norðquist

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband