Sá Gamli

Hann var á leið heim eftir að hafa skoðað nokkra hesta í gerði skammt frá sveitabænum sem hann ólst upp á. Það var notalegt að finna ilminn af hrossum, taði og tuggunni sem bóndinn hafði sett í trog fyrir hestana. Það var auðvitað algjör óþarfi að setja tuggu í trogið þar sem að sprettan á túnunum var í góðu lagi eftir mildan vetur. Bóndinn hélt hinsvegar svo mikið upp á þessar fallegu skepnur að hann mátti til með að spilla þeim örlítið. Gamli maðurinn spjallaði við bóndann um daginn og veginn og klappaði hrossunum. Hann var of slæmur í mjöðminni til þess að fara á bak auk þess var farið að hellirigna. Það setti að honum hroll og hann ákvað að drífa sig bara heim og kveikja upp í eldstæðinu. Þótt það væri komið vor í loftið var ennþá kaldur garri að norðan. Ansans Íslandslægðirnar hugsaði hann með sér og kvaddi bóndann með virktum og gekk að bílnum sínum.

Honum var alveg sama þótt hann lyktaði af hrossum og taði en skipti samt út stígvélum sínum fyrir mokkasínur áður en hann settist inn í bílinn. Hann vildi ekki skíta út mottuna sem hann hafði þrifið svo vel kvöldið áður.

Þegar hann settist inn í bílinn, fann hann fyrir stuttum en öflugum svima. Þar sem hann hafði fengið hjartaáfall fyrir tveim árum síðan, var hann alltaf á varðbergi gagnvart líkamlegum einkennum af hverju tagi sem er. Hann beið aðeins með það að setja bílinn í gang og fiskaði upp farsímann sinn og lét í sætið við hliðina á sér. Hann tók aftur upp símann og til öryggis, stimplaði hann inn 112 en ýttu ekki á sendingahnappinn, lagði svo símann aftur á farþegasætið.

Sviminn kom ekki aftur svo hann setti bílinn í gang og keyrði af stað. Þegar hann kom svo út á sveitaveginn, fann hann allt í einu lykt af appelsínum, svo megna að hann leit ósjálfrátt í kringum sig í bílnum. Hann mundi alls ekkert eftir því að hafa keypt appelsínur og gleymt þeim í bílnum. Honum fannst meira að segja appelsínur hálf óætar vegna þess að hann átti erfitt með að þola sýruinnihaldið í þeim. Appelsínulyktin hvarf jafn skyndilega og hún hafði komið og hann keyrði áfram eftir fáförnum sveitaveginum. Það hellirigndi og útsýnið út um framrúðuna fór þverrandi. Rúðuþurrkurnar höfðu varla við vatnsflæðinu.´

Skyndilega fékk hann hausverk, svo öflugan að honum varð flökurt, hann greip með hægri hendi um ennið eins og hann ætlaði að þrýsta höfuðverknum inn aftur. Hann stundi hátt, þetta var ekkert eðlilegur hausverkur hugsaði hann og hjartað fór að slá hraðar. Skildi þetta vera heilablóðfall? Hann fór í huga sér yfir einkennalistann sem hann hafði reynt að læra utan af úr einhverjum bæklingi sem hann tók í apótekinu á síðasta ári. Hann fann fyrir miklum doða í hægri hendi og höfuðverkurinn magnaðist um helming. Hann hægði á bílnum og leitað eftir stað til að stöðva bílinn á. Í speglinum sá hann mótorhjól sem var komið óþægilega nærri, hann velti því fyrir sér hvort hann myndi setja mótorhjólamanninn í hættu ef hann stöðvaði of skyndilega svo hann tappaði létt á bremsuna og hægði enn meira ferðina. Hann varð að stoppa því ekki gat hann keyrt bílinn í svona ásigkomulagi.

Hann sveigði út í kantinn og Mótorhjólamaðurinn tók fram úr honum. Hann stöðvaði bílinn og byrjaði að syngja hástöfum. "Vi er røde, vi er hvide".... hann heyrði á þvoglumælginu að það var eitthvað mikið að. Hann ýtti á sendingahnappinn á farsímanum sínum og heyrði í rödd símadömunnar á neyðarlínunni. Hann reyndi að segja eitthvað en kom ekki upp orði. Hann starði út um regnvota rúðuna og sá bíl koma á fullri ferð inn á krossgatnamótin og keyra viðstöðulaust á mótorhjólið.

Hann sá mótorhjólamanninn svífa í boga upp yfir bílinn og fætur hans skullu í framrúðu bílsins og svo endasentist hann áfram, yfir bílinn í götuna bak við hann. Þar hvarf hann úr augsýn. 

Gamli maðurinn greip með dofnu hægri hendinni um bringuna á sér og fann bókstaflega hjartað hamast fyrir innan bringubeinið. Honum sortnaði fyrir augum og hann fann meðvitundina fjara út. Hann gerði lokatilraun til þess að biðja um hjálp í farsímann en heyrði sjálfan sig umla eitthvað óskiljanlegt. Hægri hendi sleppti krampakenndu takinu á bringunni og féll máttlaus niður í kjöltu Gamla mannsins. Röddin í símanum var það síðasta sem hann heyrði í þessu lífi.... halló, halló get ég aðstoðað?  

Jac Norðquist


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jóhannesson

Halt´áfram

Páll Jóhannesson, 18.3.2009 kl. 09:42

2 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Keep going JAC 

Gudrún Hauksdótttir, 18.3.2009 kl. 10:26

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Snilld... Búinn að lesa og bíð spenntur eftir áframhaldinu.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.3.2009 kl. 16:16

4 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Þú ert ótrúlegur fléttu snillingur,bíð spennt

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 18.3.2009 kl. 16:24

5 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

Flott, búin að lesa frá upphafi og hlakka til næsta skammts :)

Sigríður Hafsteinsdóttir, 20.3.2009 kl. 20:28

6 Smámynd: Helga skjol

Bara snilld, en það er nú reyndar ekki í fyrst sinn sem ég seigji þér það :)

Bið spennt eftir framhaldi.

Helga skjol, 22.3.2009 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband