Morð

Köld rigningin lak niður rúðuna, heit tárin láku niður kinnar eiginkonunnar. Það var alveg hljótt í herberginu þar sem hún sat yfir mótorhjólamanninum. Hönd hennar hvíldi létt á lakinu sem breitt var yfir hann. Hún fann sáraumbúðirnar gegnum lakið. Hún sat í dimmunni og horfði út um regnvota rúðuna. Guð hvað hún vonaði að hún myndi bara vakna upp af værum svefni og áttaði sig á því að þetta væri bara ömurleg martröð. Blásturshljóðið í öndunarvélinni og lágvært pípið í monitorinum sannfærðu hana hinsvegar um að hún væri í raun stödd á spítalanum við hlið eiginmanns síns. Hún leit af rúðunni og niður á líflausan líkamann í hvítu rúminu. Minningar um þennan lífsglaða mann streymdu fram í huga hennar.

Brúðkaupsferðin þeirra birtist ljóslifandi fyrir hugskotsjónum og hún bókstaflega fann lyktina af ylvolgum sjónum þar sem að þau sátu í sandinum á sólarströndinni. Hann horfði í augu hennar og það vottaði fyrir kunnuglegum broshrukkunum við augnkrókana. Hann teygði hönd sína fram og strauk fingrum sínum hægt og blíðlega yfir kinnina á henni. Ástin mín eina, hvíslaði hann, ég elska þig svo heitt að ég fæ næstum því tár í augun þegar og hugsa um hvað ég er hamingjusamur. Fingur hans liðuðust hægt niður kinnina og undir hökuna á henni. Mér finnst líf mitt hafa fullkomnast þegar þú sagði já, við því þegar ég bað þig um að giftast mér. Fingur hans tóku varlega undir hökuna á henni og lyfti henni örlítið upp á við. Hann beygði sig fram og andlit hans nam nánast við hennar. Ég er svo ótrúlega stoltur af þér ástin mín, fallega eiginkonan mín. Hann kyssti hana undurblítt á varirnar.

Hún leit með tárin í augunum á höfuðið sem var hulið sáraumbúðum í rúminu. Ég er líka stolt af þér, hvíslaði hún, ég er svo óumræðanlega stolt af þér ástin mín. Hún fann hönd hans undir lakinu og færði hana ofurvarlega upp að vörunum sínum. Hún kyssti fingurgómana hans. Ég elska þig, ég elska þig svo heitt. Ekki fara frá mér, þú mátt ekki fara frá mér ástin mín. Þetta verður allt í lagi, þú átt alveg eftir að jafna þig og við.... hún lauk ekki við setninguna því að ekkinn tók yfir. Hægt lét hún hönd hans niður á rúmið aftur. Rigningin buldi á rúðunni, endalausa ískalda rigningin.

 

„Hættu“ ! Helvítis fokking hættu! Ég þoli þetta ekki, hvað í fokk ertu að gera við mig? Röddin í honum var mjóróma og hás. Hann grenjaði og það lak slefa niður hökuna á honum. Hún starði á hann, það var nú fátt sem minnti hana á að hún hafði elskað þetta djöfuls hlandblauta slefgerpi fyrir nokkrum klukkutímum síðan. Hvað í fokk var hún að spá með það? Hún myndi aldrei verða svo gömul að hún myndi skilja hvað hún sá við þetta djöfuls óbermi. Haltu djöfuls kjaftinum á þér saman helvítis skítamörðurinn þinn. Hún dáðist að því hversu róleg og yfirveguð hún var. Hann þagnaði og sat kyrr í lazyboystólnum, verkirnir í sundurskotnum fætinum voru að drepa hann en hann beit á jaxlinn. Hann var alveg viss um að hún myndi stúta honum ef hann héldi ekki kjafti. Hvað í fokk var að helvítis tíkinni? Hvernig í fjandanum geta tíkur orðið svona klikkað sækó á stuttum tíma?

Hún var búin að njóta þess nógu lengi að sjá fávitann þjást. Það var kominn tími til aðgerða. Jæja, sagði hún, nú er komið að lokum þíns auma lífs. Ef það er til Helvíti, þá vona ég að þú fáir sérherbergi í kjallaranum og þar fái þín auma djöfuls sál að þjást um aldur og ævi. Hún miðaði lögregluskammbyssunni á andlit hans og þrýsti fastar á gikkinn. Bless aumingi!

Hann fann hjarta sitt missa úr takt þegar adrenalínið sprautaðist í gusum út í blóðið. Það var eins og hann væri að horfa á bíómynd í slow-motion. Þarna stóð konan sem fyrir bara nokkrum klukkutímum var alveg undir hælnum á honum og hann gat notað eins og viljalaust verkfæri þegar honum hentaði, og miðaði á hann skammbyssu. Hann sá fingur hennar herpast utan um gikk byssunnar, einbeitt augnaráðið var kalt og tilfinningalaust. Fokk, ætlaði hún virkilega að stúta honum? Hann horfði beint inn í hlaup skammbyssunnar og sá hvernig bláleitur reykurinn gusaðist út úr hlaupinu, strax á eftir kom blýkúlan eins og reiður Geitungur í átt að honum. Getur maður virkilega séð byssukúlur á flugi, hugsaði hann steinhissa. Augun fylgdu kúlunni þar sem hún sveif hljóðlaust yfir stofuna og stefndi á hann. Hann missti af henni þegar hún hvarf undir hökuna á honum og boraði sig inn í mjúkan hálsinn. Tilfinningin var eins og einhver stæði fyrir framan hann og potaði með vísifingri beint í barkakýlið á honum, potaði af öllum kröftum svo hann smásaman náði ekki andanum. Hann fann hvernig húðin gaf sig og heit kúlan þrýsti barkakýlinu þvert yfir öndunarveginn og lokaði honum alveg áður en það rifnaði. Kúlan hélt áfram og yfirgaf blóðuga klessuna í barkanum og hélt áfram gegnum hálsinn og stefndi beint á banakringluna innanverða. Hún lenti á milli efstu hryggjaliðanna og tók í sundur mænuna áður en hún fór út úr hálsinum aftanverðum. Hann fann hvernig lungun fóru að öskra eftir lofti sem gat ekki þrengt sér niður í þau gegnum sundraðan hálsinn. Heilinn sendi skilaboð til handanna um að færa þær upp að hálsinum en þar sem að mænan var í sundur gerðist ekkert annað en að hann lyppaðist niður í lazyboystólnum. Það hrökk allt aftur úr slow-motion og hann starði skökkum augum á konuna sem stóð yfir honum. Helvítis svínið þitt, Fokking drepstu, öskraði hún og hleypti aftur af. Í þetta sinn fann hann rétt svo fyrir höggi kúlunnar áður en hún gersamlega splundraði heilanum í honum. Líkaminn kipptist lítillega til.

  Hann var ekki til lengur.

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Hjúkk. Spenna. Það datt út andardráttur hjá mér líka og það kom hik á hjartað. Lýsingin á ferð kúlunnar hafði þessi áhrif.

Marta Gunnarsdóttir, 14.5.2009 kl. 22:21

2 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Hvernig ferðu að þessu? ....Þá á ég við lýsinguna á ferð kúlunnar ? Oh...boy....þetta er all hrikalegt....ÚPS.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 15.5.2009 kl. 21:08

3 Smámynd: Jac G. Norðquist

Takk fyrir kommentin Marta og Fjóla!

Fjóla.... ég bara lifi mig svo inn í þetta sjálfur að ég næstum finn til með persónunum mínum. Það er örugglega efni í næstu sögu.... ;)

Takk kærlega fyrir að nenna að lesa þetta niðurHrip hjá mér.

Bestu kveðjur

Jac

Jac G. Norðquist, 15.5.2009 kl. 21:51

4 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Þú er frábær....en svona á þetta að vera. Það sem kemur frá hjartanu og tilfinningunum, er ekta.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 16.5.2009 kl. 07:51

5 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

váááá ég á ekki orð,ef þú átt ekki framtíð fyrir þér drengur í þessum bransa þá er ég illa svikinntakk kærlega að fá að vera í þessum forgangshóp að lesa þetta

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 16.5.2009 kl. 23:37

6 identicon

Jahá...

Jófó (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband