Miðnætti

Það var komið miðnætti og læknateymið var að sauma lokasporið í líkama mótorhjólamannsins. Þetta var búið að vera erfiður tími fyrir teymið þar sem að enginn var viss um að mótorhjólamaðurinn myndi nokkru sinni vakna aftur eða yfirhöfuð, lifa af. Það komu afar dauf merki um heilavirkni og það gaf þeim örlitla von um að erfiðið væri ekki til einskis. Heila og taugaskurðlæknirinn hagræddi höfði mótorhjólamannsins á sérútbúnum stuðningspúðanum og leit svo yfir hópinn. Vel af verki staðið gott fólk. Við skulum rúlla honum fram á bráðadeild og setja vöku yfir hann í nótt. Ef það hætta að koma merki frá monitornum sem sýna heilavirknina, þá er þetta bara spurning um að slökkva á öndunarvélinni, honum verður ekki bjargað nema það sé í það minnsta smá virkni í fremri cortex. Læknarnir kinkuðu kolli og voru sammála. Mótorhjólamanninum var rúllað í sjúkrarúmi inn á bráðadeildina þar sem að hann var tengdur við heilalínurit og veggfasta öndunarvél bráðadeildarinnar. Smámsaman tæmdist hvítmálað herbergið af fólki og mótorhjólamaðurinn lá einn eftir. Hjúkrunarkonan gerði sig klára til að ná í eiginkonu mótorhjólamannsins sem beið frammi á biðstofunni.

 

Eftir að hafa nánast drukkið heila flösku af tequila, sat konan í lazyboy stólnum og var við það að sofna. Helvítis auminginn var ekki ennþá kominn heim og það var komið miðnætti. Andskotans öfugugginn var fokking að fokka einhversstaðar, það var hún viss um. Hún fann reiðina ennþá svella í brjósti sér. Eitt augnablik hugsaði hún um hvað henni gat enst reiðin og var svolítið hissa á því. Hún var alls ekki vön að vera svona stjórnlaus af reiði. Hvað gat orsakað þetta? Hún reisti sig upp í stólnum, hvað í fokk er ég að spá? Gat verið að bílslysið hefði orsakað eitthvað skammhlaup í heilanum á henni? Eða var niðurlægingin þegar helvítis fíflið barði hana og henti henni út á götu svona mikil að hún fór yfirum? Hún stóð upp og fann að tequilað gerði hana reikula á fótum. Hún fann fyrir þungri lögregluskammbyssunni í hendinni og starði hissa á hana, hvað er fokking málið með mig? Heilinn náði ekki að koma með neitt skynsamt svar því að í sömu andrá heyrði hún lykli stungið í skrána. Helvítis auminginn var kominn heim. Það var eins og þessi vottur af skynsemi sem kom sem snöggvast yfir hana, hyrfi eins og dögg fyrir sólu. Hægri hönd hennar krepptist fast um byssuskeftið og hún rétti úr bakinu. Helvítis motherfokkerinn skyldi sko fá að sjá eftir því að hafa komið svona fram við hana. Djöfull skyldi fokking fávitinn fá að kveljast. Hún beið róleg í myrkrinu eftir að fyrrum kærasti hennar gengi inn í húsið. Það læddist fram kalt bros á andlit hennar.

 

Hjúkrunarkonan fylgdi eiginkonunni inn á herbergið þar sem að mótorhjólamaðurinn lá á sjúkrabeði sínu. Hann var í einkennilegri stöðu vegna höfuðáverkanna og lá næstum á hliðinni í rúmi sem hallaðist í átt eina glugganum í herberginu. Það sást varla í höfuð hans vegna umbúða og stuðningspúðans sem verndaði mjúkt hnakkasvæðið. Gráfölt ennið og augun sáust en það var ekki mikið meira en það. Súrefnisgríma var spennt yfir munn og nef og það lágu slöngur og leiðslur um allt. Hann var tengur við tvo monitora ásamt öndunarvél. Hjúkrunarkonan fylgdist með eiginkonunni þar sem hún gekk hægum skrefum yfir að rúmi mótorhjólamannsins. Hún var með krosslagðar hendurnar og augun full af tárum. Það var breitt lak yfir mótorhjólamanninn svo ekki einusinni hendurnar stóðu útundan. Hún varð að koma við manninn sinn fannst henni og leitaði eftir stað þar sem hún gæti snert hann. Snert hann og fullvissað sig um að þetta væri raunverulega hann. Hún strauk létt með fingurgómunum yfir ennið á honum. Elskan mín, sagði hún, elsku ástin mín. Hún fann hvernig fætur hennar misstu máttinn og hún varð að styðja sig við rúmbríkina. Hún fór að hágráta og hugsaði um hversu sterkur henni hafði alltaf fundist maðurinn sinn vera. Hann var í hennar augum kletturinn í sambandinu þeirra. Þegar allt virtist vera að hrynja hjá vinum og vandamönnum, komu allir til mannsins hennar að fá stuðning og góð ráð. Heilu fjölskyldurnar voru oft í nokkurskonar sálfræðimeðferð hjá honum og hann gaf óspart af sér. Of mikið að hennar mati því hann átti svo erfitt með að losa sig við það slæma sem hann saug út úr hinum og setti sólskin í staðinn. Hann tók af sólskininu sínu og setti í staðinn fyrir myrkrið. Nú lá þessi stóri sterki maður og sveif milli heims og helju. Elsku ástin mín. Hún beygði sig yfir mótorhjólamanninn og kyssti á ennið hans. Elsku hjartans ástin mín. Hjúkrunarkonan reyndi ekki einusinni að verjast tárunum. Hún myndi aldrei venjast því að sjá fjölskyldur missa ástvini sína. Aldrei. Enn og aftur hvarflaði að henni að hætta í þessu starfi.  

Jac Norðquist


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Veistu það drengur að þú ert ótrúlegur penni,tvær svona ólíkar færslur á sama deginum og hvor annari betriendilega haltu áfram vinur,það eru forréttindi að fá að lesa þetta áður en það verður metsölubók

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 22.4.2009 kl. 22:36

2 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Ég tárast líka.

Marta Gunnarsdóttir, 23.4.2009 kl. 09:27

3 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Gott hjá þér.....

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 23.4.2009 kl. 09:56

4 identicon

Mjög góð færsla. Miklu þéttari en síðustu kaflar. Áfram með smérið ;)   

Jófó (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband