Dráttarbíll

Lögreglumennirnir kláruðu sígaretturnar og biðu eftir dráttarbílnum. Þeir stóðu hnípnir í ískaldri rigningunni sem ekkert lát var á. Báðir voru orðnir holdvotir svo það var til lítils að bregða sér inn í bílinn, hann myndi bara verða allur í móðu og vibba. Þeir þurftu ekki að bíða lengi eftir dráttarbílnum. Bílstjórinn var ekki lengi að draga mótorhjólið upp úr skurðinum með áfestum krananum og lét það síga varlega niður á pall dráttarbílsins. Hann bakkaði síðan dráttarbílnum að bíl konunnar og krækti í hann og lyfti framhjólunum upp frá jörðinni og dró hann þannig af slysstað. Lögreglumennirnir strengdu borða utan um bíl gamla mannsins til að gefa öðrum vegfarendum til kynna að lögreglan vissi um málið svo fólk væri ekki að hringja inn tilkynningar um bilaðan bíl í kantinum. Dráttarbílstjórinn ætlaði svo að koma síðar um kvöldið eða snemma næsta morgun til að sækja bílinn. Hann renndi í burt og gat ekki annað en brosað með sjálfum sér. Lögreglan hafði gleymt að biðja hann um að sópa upp glerbrotunum. Nú lenti það á þeim.

Lögreglumennirnir veittu því athygli á sömu stundu og brosið laumaðist á andlit dráttarbílstjórans að þeim hafði láðst að biðja hann um að þrífa upp glerbrotin. Sá eldri bölvaði í sand og ösku. Hann var ekki vanur að bölva upphátt svo að sá yngri leit hissa á hann. Svona svona sagði hann, ég næ bara í kústinn, þetta tekur ekki langa stund. Hann gekk til verks með það sama. Sá eldri gat ekki annað en brosað að klaufaskapnum í þeim, fjárans kjánaskapur. Sá yngri sópaði af miklum móð og náði að klára þetta á met tíma. Þeir litu svo yfir vettvanginn og voru sáttir. Það var ekki að sjá að þarna hefði orðið hræðilegt slys og hugsanlega tvö mannslát fyrir örstuttu síðan. Það voru bara tvö lítil gúmmíför eftir dekk mótorhjólsins og engin bremsuför eftir bíl konunnar. Meira að segja blóðið úr mótorhjólamanninum var löngu skolað burt af miskunnarlausri rigningunni. Sá eldri settist inn í lögreglubílinn og slökkti á forgangsljósunum og setti bílinn í gang. Hann skrúfaði upp miðstöðina. Hann leit í spegilinn og þá fyrst tók hann eftir því að konuna vantaði. Hann snéri sér snöggt við og hváði. Sá yngri settist inn í bílinn í sama mund og leit svo aftur í. Bíddu, hvar er konan? Sá eldri yppti öxlum, hef ekki hugmynd, ég varð ekkert var við að hún hefði farið eitt eða neitt. Þeir rýndu báðir út í rigninguna en það var ekkert að sjá. Þeir keyrðu rólega af stað og svipuðust um eftir henni. Hún virtist ekkert í sjokki og alls ekki neitt slösuð svo henni hefur bara leiðst biðin og lagt af stað heim. Erum við ekki með addressuna? Spurði sá yngri. Jú addressan hennar er hér í skýrslunni, hann leit snöggt á klemmubrettið með skýrslunni og fann addressuna. Hún býr í miðborginni svo að ekki hefur hún ætlað sér að ganga rúmlega 15 kílómetra, við skulum svipast eftir henni við strætóstoppistöðvarnar hér neðar við sveitaveginn. Þeir brunuðu af stað. Þeir höfðu auðvitað enga hugmynd um að hún hefði gengið þennan stutta spotta að húsi fyrrum kærasta síns.

Vinkona Eiginkonunnar kom keyrandi inn heimkeyrsluna og það vældi í dekkjunum þegar hún negldi niður. Það mátti engu muna að hún keyrði inn í útidyrahurðina. Hún stökk út úr bílnum og hljóp inn í húsið þar sem hún fann vinkonu sína liggjandi með litlu stúlkuna á leikteppinu inni í stofu. Ég er komin stundi hún upp og hjartað hennar barðist í brjóstinu. Eiginkonan stóð upp frá litlu stúlkunni og þurrkaði sér um tárvot augun. Takk vina, sagði hún. Ég er bara í svo miklu rusli. Mér skildist á hjúkrunarkonunni sem hringdi áðan að maðurinn minn hefði verið keyrður niður á mótorhjólinu sínu á leið heim úr vinnunni og það væri tvísýnt um líf hans. Ég verð að fara niður á spítala og og... rödd hennar brast. Hún hristist öll af niðurbældum ekka. Svona svona, sagði vinkonan, þetta verður allt í lagi ha? Drífðu þig bara niðureftir og ég verð með litlu stúlkuna og þú tekur bara þinn tíma. Maðurinn minn kemur bara hingað á eftir með drengina og við sofum bara hér í nótt eða bara eins lengi og þú þarft á að halda. Drífðu þig bara og hafðu engar áhyggjur af stúlkunni, við bara reddum þessu. Eiginkonan tók utan um vinkonu sína og kreisti hana fast í faðm sér. Takk, þú ert bara dásamleg. Þær horfðust í augu og báðar vissu að þær yrðu vinir fyrir lífstíð. Eiginkonan brá sér í jakka og létta sandala og settist út í bílinn sinn. Hún var ekki nema rúmlega tíu mínútur að keyra niður á spítala. Það var ótrúlega lítil umferð miðað við þennan tíma dags, hvort sem það var rigningunni um að kenna eða einhverju öðru.

   


Símtal

Síminn hringdi í veski eiginkonunnar. Mótorhjólamaðurinn var vanur að segja henni að þetta væri of hommaleg hringing fyrir Nokia símann hennar. Eftir að hafa sagt honum að samkynhneigðir karlmenn væru á vakt allan sólarhringinn við það eitt að semja lög í farsíma, brosti hann og hætti að stríða henni. En hún gleymdi þessum aulabrandara aldrei og í hvert sinn sem síminn hennar hringdi, brosti hún út í annað. Henni dauðleiddist þessi hringing en þrjóskan varð leiðanum yfirsterkari og hún skipti ekki um hringingu. Bros hennar þurrkaðist út í einni andrá þegar hjúkrunarkonan á spítalanum hafði kynnt sig stuttlega og sagt henni að maðurinn hennar hafði lent í alvarlegu slysi. Augu hennar fylltust tárum og hún byrjaði öll að skjálfa. Hún greip fast í borðstofustólinn sem var fyrir framan hana og kreisti fast. Ég verð að vera sterk, hugsaði hún, verð að vera sterk. Hún teygði sig í símann og valdi númerið hjá vinkonu sinni sem bjó í næsta hverfi. Sæl vina, sagði hún andstutt og reyndi að hafa stjórn á röddinni, er séns á því að þú getir komið aðeins hingað yfir? Maðurinn minn lenti í slysi og er víst þungt haldinn.... rödd hennar brast og hún fór að skæla. Vinkona hennar sagðist koma beint yfir og skellti á. Það var eins og litla stelpan á leikteppinu skildi að það væri eitthvað að hjá mömmu sinni, hún setti í brýrnar og hjalaði lágum rómi, það var eins og hún væri að reyna róa mömmu sína. Eiginkonan leit á litlu stelpuna og brosti örlítið gegnum tárin, guð hvað þú ert lík pabba þínum elskan mín. Hún tók stelpuna upp og knúsaði hana. Ilmurinn af stúlkunni róaði hana örlítið. Svona svona, það verður allt í lagi með pabba þinn, hann er vanur að spjara sig hvíslaði hún í eyra barnsins.

 

Djöfuls fokking fáviti ! Hann var ekki heima eftir alltsaman. Konan varð ennþá verri í skapinu og kýldi með hnefanum í hurðina. Hún mundi að hún var með aukalykilinn hans í  veskinu og fiskaði hann upp. ísköld rigningin var búin að framkalla skjálfta í henni og hún gat varla hitt lyklinum í skráargatið vegna þess. Hún komst inn og skellti hurðinni fast á eftir sér. Til öryggis kallaði hún hátt á hann en fékk ekkert svar. Helvítis djöfuls aumingjatitturinn þinn. Mikið fokk hlakkar mig til að þú komir heim. Það bíða þín nokkrar dásamlegar blýkúlur. Hún hlammaði sér í lazyboy stólinn hans og setti skemilinn upp. Hún ætlaði sér að bíða eftir fíflinu og svoleiðis fokking stúta honum þegar hann kæmi heim. Það yrði svo bara fokking aukabónus ef helvítis drulluhóran væri með honum. Vonandi að hún hefði nógu mörg skot til að rústa þeim báðum. Helvítis fokking frábært af þessum heimsku löggum að gleyma byssunni svona fyrir framan hana. Hún brosti kalt og nuddaði hlaupinu á byssunni upp að vörunum á sér. Kalt hlaupið og sterk járnlyktin af byssunni sendi unaðshroll um kroppinn hennar. I´m on fokking fire sagði hún hátt við sjálfa sig. Það var eins og öll heilbrigð skynsemi hefði gufað upp úr líkama hennar, henni var alveg sama. Fokking fávitinn yrði sendur til helvítis þegar hann kæmi heim og eftir það mátti skynsemi og rökhugsun taka öll völd aftur, þangað til skyldi hún njóta augnabliksins. Henni fannst hún í fyrsta skiptið í langan tíma vera raunverulega lifandi. Hún leit í kringum sig í stofunni og sá að vínskápurinn stóð opinn. Hún stóð upp í lazyboy stólnum og gekk að skápnum. Það var ekki eins og hún væri vön að fá sér oft í glas og aldrei á virkum degi. Þetta voru samt óvenjulegar aðstæður hugsaði hún og leitaði eftir einhverju drykkjarhæfu í skápnum. Hún tók flösku af Tequila og settist aftur í lazyboy. Þetta myndi stytta henni stundir þar til aumingjamörðurinn kæmi aftur úr hóruheimsókninni útriðinn og ógeðslegur. Fokk hvað henni hlakkaði til að sjá fokking smettið á honum. Djöfull skyldi hún fokking myrða hann.

Jac Norðquist


Gangan í rigningunni

Konan gekk eftir miðjum veginum, ískaldri rigningunni virtist ekkert linna, hún smeygði höndunum inn undir síðan jakkann og hálf faðmaði sjálfa sig. Kuldahrollur fór um kroppinn hennar og hún beit saman jöxlunum. Hugur hennar tók ekkert eftir umhverfinu heldur einbeitti sér að verkefninu sem hún var búin að koma sér upp. Enginn djöfuls fokking karlmaður skyldi nokkru sinni hafa hana að fífli aftur. Það var kominn tími til að taka málin í sínar hendur. Hún keyrði höfuðið ofan í bringu og gekk hraðar. Það var að færast yfir hana einhver dásamleg ró, ró manneskju sem hefur tekið einræna ákvörðun og trúir á hana. Hún fann fyrir þyngd lögregluskammbyssunnar í veskinu. Hún brosti.

 

Sjúkrabíllinn kom að lokum þar sem að lögreglumennirnir stóðu og reyktu við hlið lögreglubílsins. Þeir fylgust þögulir með þegar sjúkraflutningamennirnir tóku út börurnar og tosuðu þær að líki gamla mannsins. Með samhæfðum hreyfingum tóku þeir líkið og settu það í silki svartan líkpokann og renndu honum upp. Þeir tóku það svo, lögðu varlega á börurnar og spenntu það niður með appelsínugulum ólum. Lögreglumaðurinn ,sá yngri, furðaði sig á því að þeir skyldu ekki reyna hjartastuðtækið eða einhverjar lífgunartilraunir á líkinu. Hann leit spurnar augum á þann eldri sem eins og fyrir einhverja náðargáfu, skildi spurnina í augum þess unga. Sko, sagði hann, ég sagði þeim áðan að augasteinarnir í gamla manninum voru ekki samhæfðir, ég veit ekki hvort þú tókst eftir því en augasteinninn í hægra auganu var að fullu út þaninn meðan sá vinstri var saman dreginn. Það bendir eindregið á alvarlegt heilablóðfall. Þegar þú svo byrjaðir að hjartahnoða hann, þá hefur blóðið spýst út úr gúlpinum sem rifnaði á heilaslagæðinni og endanlega stútað þeim gamla, ef það hefði verið einhver von eftir það, þá var henni eytt með því að rifbeinsbrjóta hann og gegnumgata lungun í aumingjans hræinu. Sá eldri spýtti góðri slummu út úr sér og starði stíft á þann yngri og beið eftir viðbrögðum. Þau létu ekki standa á sér því hann greip um magann, beygði sig í keng og ældi á rennvota götuna. Sá eldri kláraði sígarettuna og fleygði henni í ælupollinn. Komdu, þetta verður allt í lagi. Hann náði í þurrkur inn í lögreglubílinn og rétti þeim yngri. Þurrkaðu þér og klárum þetta leiðinda mál hérna. Hvorugur veitti því athygli að konan sat ekki lengur í aftursæti lögreglubifreiðarinnar. 

Hjúkrunarkonan gekk hröðum skrefum fram á vaktherbergið með glærann plastpokann í annarri hendinni en símtæki í hinni. Hún lagði símtækið frá sér,  opnaði svo pokann og hellti innihaldinu á borðið. Veski, sími og lyklar mótorhjólamannsins ultu úr pokanum og niður á plastklædda borðplötuna. Síminn var brotinn og blautur svo hún snéri  sér að veskinu. Hún opnaði það og fann ökuskírteini mótorhjólamannsins. Þarna starði hann á hana gegnum svarthvíta passamynd, örlítið brosandi og hallaði höfðinu örlítið til vinstri á myndinni. Dáleidd horfði hún í augu hans þar til hönd hennar byrjaði að titra örlítið. Þetta andlit líktist alls ekkert bólgnu og blóðugu andlitinu sem hún hafði séð inni á skurðarborði. Hún hafði einmitt staðið fyrir aftan svæfingarlæknana þegar þeir tóku af honum súrefnisgrímuna úr sjúkrabílnum og tengdu hann við súrefnið á spítalanum. Þetta karlmannalega andlit með broshrukkum kringum augun og dáleiðandi brosið líktist manninum á skurðborðinu alls ekkert. Þá tók hún eftir litla en áberandi örinu við annan augnkrókinn á myndinni. Hún hafði einnig tekið eftir þessu sama öri á mótorhjólamanninum. Þetta var þá sami maðurinn, hún fann fyrir óútskýrðum trega í brjósti sér. Hún snéri sér að tölvunni sem sat á skrifborðinu og fletti upp nafninu hans í símaskránni. Það voru tvö nöfn skráð fyrir símanúmerinu sem kom upp. Nafnið sem stóð í ökuskírteininu fyrir framan hana og svo kvennmannsnafn. Hann var þá giftur. Úff, það yrði ekki auðvelt að hringja í konuna hans og segja henni hvað hefði komið fyrir manninn hennar. Hún tók upp símtólið og valdi númerið.

Það var stutt eftir að húsi fyrrum kærasta hennar og hún herti gönguna. Hann varð að vera heima hugsaði hún. Helvítis fokking fíbblið varð að vera heima. Hún var komin að grænmálaðri hurðinni og starði á hana. Það virtist augnablik eins og það væri heil eilífð síðan hann sló hana og henti henni út í götusteininn. Hún fálmaði eftir þungri skammbyssunni í veskinu og dró hana upp. Hún kunni ekkert með vopn að fara en hafði séð nógu margar krassandi bíómyndir til þess að vita að það væri eitthvert öryggi á öllum skammbyssum. Hún fann lítinn till sem hún dróg til baka og það kom smellur og lítill rauður punktur gaf til kynna að öryggið væri ekki lengur á. Hún miðaði byssunni á miðja hurðina og sparkaði svo fast með hægri fæti í hurðina. Svo beið hún með byssuna á lofti eftir því að helvítis drullumörðurinn kæmi til dyra. Djöfull fokking ætlaði hún að skjóta helvítis tussufésið af honum og svo var hún ákveðin í að pumpa restinni af skotunum í helvítis fokking klofið á fávitanum. Hún var næstum því búin að hleypa af skoti í hurðina því hún lifði sig svo inn í atburðarásina sem fór fram í kollinum á henni. Helvítis fokkin auminginn að drulla sér ekki til dyra.

Hún sparkaði aftur í hurðina.

Jac Norðquist

  

 


Aðgerð

Læknateymið vann sleitulaust að því að bjarga lífi mótorhjólamannsins. Hann sveif milli heims og helju og monitorinn skráði samviskusamlega baráttu hans við dauðann. Hjartað hætti tvisvar að slá meðan á aðgerðinni stóð en læknarnir komu því aftur í gang með skammti af rafbylgjum sem þeir sendu gegnum bringu mótorhjólamannsins. Eftir að hafa skorið, neglt, saumað og plástrað. Leit Heila og Taugaskurðlæknirinn að lokum upp og fékk þurrkað svitann af enninu. Jæja, þá er höfuðkúpan að aftanverðu komin í ágætt horf, sagði hann við samstarfsfólk sitt. Það er plast spöng hér, sagði hann og benti hinum læknunum á sem höfðu ekki séð hvað hann var að gera meðan þeir voru að tjasla saman fótleggnum, hún styður við hnakkann meðan bólgan þverr og síðar, þegar og ef hann jafnar sig, munum við setja títaníumplötu í hnakkann á honum. Heilinn sjálfur skaðaðist hér við hálsræturnar en það virðast ekki neinar skemmdir á mænunni svo hann ætti ekki að vera lamaður. Hinsvegar hef ég áhyggjur af því að ég fæ ekki nógu skýr taugaboð á monitorinn. Það mælist enginn REM virkni og það bendir til þess að hann sé í dá ástandi eða Coma eins og sagt er. Það er þó ekkert víst með það því að dá ástand varir oft eftir alvarlega höfuðáverka i allt að sólarhring án þess að það hafi neina framhaldsvirkni. Læknarnir ákváðu að halda mótorhjólamanninum sofandi í sjö daga og eftir það ætluðu þeir að vekja hann úr djúpsvefninum en ekki nema rétt svo til þess að skoða heilalínuritið og breytingar á því.

 

Konan kyngdi munnvatninu og stressið jókst töluvert hjá henni. Ekki það að adrenalíníð væri ekki skrúfað í botn fyrir en að stela skammbyssu frá lögreglumanni meðan hún beið inni í lögreglubílnum, var eitthvað svo súrrealískt fyrir henni. Hún steig út úr lögreglubílnum og fann ískalda rigninguna leka niður hárið og ofan í hálsmálið. Henni var alveg sama, tók varla eftir því. Kroppurinn á henni var of fullur af adrenalíni til þess. Hún horfði á lögreglumennina, annar lá á hnjánum í götunni og hnoðaði brjóstkassann á einhverjum gömlum durgi meðan hinn stóð hjá og reykti sígarettu. Fokk, hún þreifaði ósjálfrátt eftir sígarettunum sínum, fann þær og dró upp eina. Hún gekk af stað meðan hún kveikti sér í rettunni og tók stefnuna inn götuna sem hún hafði keyrt blinduð af tárum fyrir heilli eilífð síðan. Fljótlega hvarf hún inn í rigningasuddann, ískaldan fokking rigningarsuddann.

Lögreglumaðurinn leit sem snöggvast upp frá hjartahnoðinu, honum fannst hann sjá hreifingu við lögreglubílinn. Hann var að fara að píra augun í átt að bílnum þegar djúp hrygla kom úr barka gamla mannsins. Þú ert að ýta of fast, sagði eldri lögregluþjónninn, þú gætir verið búinn að rifbeinsbrjóta hann, svona ég skal aðeins taka við. Hann lagðist á hnén við hlið yngri lögreglumannsins og ýttu svo á bringu þess gamla. Hann fann strax að rifjakassinn var brotinn þegar hann ýtti með þunga á bringuna. Froðukennt blóð kom út í munnvik gamla mannsins. Lögreglumennirnir horfðust í augu. Það var greinilegt að það hafði brotnað rifbein og stungist í lunga gamla mannsins. Eldri lögreglumaðurinn þreifaði eftir púls gamla mannsins en fann engan. Þeir stóðu báðir upp og sá eldri gekk að farangursrými lögreglubílsins og dró fram teppi sem hann svo breiddi yfir líkið á götunni. Það yrði gott að fá sér smá koníak og kaffi þegar vaktinni lyki. Honum var farið að hlakka til. Ekki grunaði honum að deginum væri langt í frá lokið.

Jac Norðquist

 


Bráðadeild

Lögreglumennirnir biðu eftir dráttarbílnum svo hægt væri að hreinsa gatnamótin. Bíll konunnar var í óökuhæfu ástandi þar sem að gat hafði komið á vatnskassa bílsins. Auk þess lágu plasthlutir úr mótorhjólinu ásamt glerbrotum um alla götuna. Þeir ætluðu ekki að fara út í þessa skítarigningu til að hreinsa upp heldur skyldi dráttarbílstjórinn fá heiðurinn af því. Annar lögreglumaðurinn var nú farinn að finna fyrir nikótínskorti, sérstaklega eftir að konan kom aftur inn í bílinn angandi eins og Marlboro verksmiðja. Hann sagði við félaga sinn að hann ætlaði út að mæla afstöðuna á vettvangi og steig út úr bílnum. Í farangursrýminu náði hann í metramæli og kveikti sér svo í sígarettu undir skottlokinu. Hann gekk hægt af stað og dróg axlirnar upp undir eyru og hristi sig. Mikið fjári var kalt í þessari rigningu.

Hann setti metramælirinn niður við miðjuna á bíl konunnar og mældi vegalengdina að flaki mótorhjólsins sem lá í kantinum. Hripaði töluna niður á blað og passaði upp á að það blotnaði ekki. Hann leit svo í kringum sig og sá þá bíl gamla mannsins. Hann fór að velta fyrir sér hvort staða bílsins hefðu haft áhrif á mótorhjólamanninn og þess vegna hefði hann ekki náð að víkja fyrir konunni. Rólega gekk hann í átt að bílnum og reyndi að meta aðstæður á leiðinni. Nei varla, bíllinn var of langt út í kantinum til þess að trufla mótorhjólamanninn. Hann gekk nær og þá sá hann gegnum rigninguna sem lak niður rúður bílsins, að það sat einhver undir stýri. Hann tók á rás og reif upp hurðina á bílnum.

Læknateymið vann hratt og fumlaust við að koma mótorhjólamanninum inn á skurðdeildina. Þeir tóku hann ofurvarlega af sjúkrabörunum og smeigðu honum yfir á skurðaborðið sem var tilbúið og upplýst. Heila og taugaskurðlæknirinn fjarlægði varlega stífurnar sem héldu hálsi mannsins í skorðari stöðu. Saman snéru læknarnir manninum á hægri hliðina og skorðuðu höfuð og háls svo að það var hægt að huga að mölbrotnum hnakkanum. Eftir að það var búið að klippa utan af honum mótorhjólagallann og stabilisera hann á skuraðarborðinu, færðu þeir færanlega segulómtækið yfir líkama hans og byrjuðu að óma höfuðið og restina af kroppnum. Það kom í ljós að vinstri handleggur var brotinn á fjórum stöðum, mjaðmagrindin brotin efst við vinstri (illium) kragann, vinstri lærleggur var brotinn á tveimur stöðum og að lokum var vinstri leggur í sundur við hné og hékk þar laflaus á sinum og skinni einu saman. Þar hafði bíllinn lent beint á leggnum og kramið hann nánast í sundur. Hnakkinn hafði svo farið í klessu við höggið þegar hann féll í götuna eftir áreksturinn. Heila og taugaskurðlæknirinn leit á hópinn sinn og sagði "Allir tilbúnir?" og svo hófst hann handa við að bjarga lífi mótorhjólamannsins.

Halló! Halló! Lögreglumaðurinn hristi öxl gamla mannsins, er allt í lagi hjá þér? Bláminn á eyrum mannsins og svört tungan sem lafði úr öðru munnvikinu sannfærði lögreglumanninn um að þetta var eitthvað annað en ölvaður gamall maður. Hann losaði öryggisbeltið af manninum og dró hann út úr bílnum og lagði hann á vott malbikið, hann fór úr embættis-regnjakkanum og setti hann undir höfuð gamla mannsins og þreifaði svo eftir einhverjum merkjum um líf í gamla kroppnum. Þegar hann fann engin merki um líf, kallaði hann eftir sjúkrabíl í talstöðina og hófst handa við endurlífgun. Hann potaði tungunni aftur upp í munn gamla mannsins, dró upp andlitsmaska og brá yfir munn hans og nef. Svo byrjaði hann að blása og hjartahnoða. Hinn lögreglumaðurinn var kominn og stóð yfir þeim. Rigningin virtist ekkert í rénun.

Hvað í helvítis fokkin djöfulsins fokki er nú í gangi? Hugsaði konan með sér þegar lögreglumaðurinn rauk skyndilega út úr bílnum og skellti á eftir sér hurðinni. Hún hafði verið niðursokkin í hugsanir sínar og tók ekki eftir tilkynningu hins lögreglumannsins í talstöðinni. Hún var orðin fjúkandi reið á þessu "veseni" eins og hún upplifði þetta súrrealíska ástand. Gat enginn skilið að henni gæti liðið illa? Hugur hennar hvarflaði að kærasta... fyrrum kærasta leiðrétti hún í huganum og henni langaði að hringja í hann. Henni langaði að gráta í faðmi hans og finna sterkar hendurnar umlykja sig og heyra hann hvísla í hárið á henni, þetta verður allt í lagi elskan, svona svona, þetta verður allt í lagi. Reiðin blossaði upp í henni aftur og hún bölvaði upphátt. Helvítis fokking djöfuls hóruunginn, djöfull hata ég þig helvíti mikið helvítis motherfokkerinn þinn. Hún kreppti hnefana eins fast og hún gat. Það var eins og hún ætlaði sér að kyrkja allar fallegar minningar sem hún átti um þennan fyrrum kærasta sinn. Helvítis fokking auminginn að gera henni þetta, það var fokking honum að kenna að hún keyrði niður einhvern óheppin mótorhjólamann. Ég skal fokking drepa þig helvítis aumingja tippatogarinn þinn, ég skal sko fokkin stúta þér. Hún horfði upp í loftið á lögreglubílnum og tárin láku niður kinnarnar. Það færðist einhver ró yfir hana. Hún vissi hvað hún þurfti að gera. Svona fokking aumingjar áttu ekki skilið að fá að ganga á jörðinni. Í smelluhulstri milli sætanna á lögreglugílnum lá þjónustuskammbyssa annars lögreglumannins. Hún seildist eftir henni og laumaði henni í veskið sitt.

Jac Norðquist

 


Rigning

Köld rigningin féll lóðrétt niður á malbikið. Í fjarlægð heyrðist í umferðinni á hraðbrautinni þar sem að fólk var á leið heim eftir vinnudaginn. Trukkar í bland við fólksbíla drunuðu í sitthvora áttina og sumum lá meira á en öðrum. Það var engin asi á litla sveitaveginum við krossgötugatnamótin, þar sem að lögreglan var að hreinsa upp glerbrot eftir alvarlegt mótorhjólaslysið. Konan sat aftur í lögreglubílnum og var að gefa skýrslu. Titrandi bað hún lögregluþjóninn um að fá að stíga aðeins út úr bílnum og fá sér sígarettu til að róa taugarnar. Lögreglumaðurinn dró fram litla samanbrotna regnhlíf og rétti konunni aftur í, gerðu svo vel, það er hellirigning ennþá. Hún tók við regnhlífinni og steig út úr bílnum. Það var svolítið basl að halda á regnhlífinni meðan hún kveikti í rettunni en það hafðist og hún dró ofan í sig dásamlegan reykinn og passaði sig á að fylla vel út í lungun og hélt svo aðeins niðri í sér andanum til þess að nýta hvert einasta milligramm af sætum reyknum.

Tvær sígarettur gufuðu upp á ótrúlega skömmum tíma og hún gerði sig klára að setjast inn í bílinn. Hún leit snöggt í kringum sig og rak þá augun í bíl gamla mannsins í vegkantinum þar skammt frá. Eitt augnablik fannst henni hún sjá móta fyrir mannveru sem hékk fram á stýri bílsins en hundsaði það og settist inn í lögreglubílinn.

Sjúkrabíllinn keyrði hratt en samt ekki á útopnu, inn í borgina. Bílstjórinn hægði vel á sér á öllum umferðarljósum og gætti fyllsta öryggis þegar hann fór yfir á rauðu. Það var engin ástæða til þess að vera á "yfir-forgangi" því að eins og þeir voru búnir að sjá, átti þessi aumingjans mótorhjólamaður engan séns á að sleppa lifandi úr þessar raun. Hann leit snöggt aftur í bílinn og sá gráfölt andlit mannsins bak við súrefnisgrímuna. Blessaður kallinn, það yrði ömurlegt fyrir fjölskylduna hans að fá fréttirnar. Bílstjórinn hristi höfuðið og það setti að honum hroll, aldrei gat hann vanist því að keyra með dauðadæmt fólk. Hann fór að íhuga önnur störf, þetta var farið að fara í taugarnar á honum, öll þessi mannlega eymd og sársauki. Hann kom að spítalanum og setti sjúkrabílinn í bakkgír og bakkaði inn að skýlinu þar sem að læknateymið beið eftir mótorhjólamanninum.

Henni langaði strax í aðra sígarettu en þorði ekki að biðja lögregluna aftur um leyfi. Þeir héldu áfram að yfirheyra hana og voru duglegir að pumpa út úr henni upplýsingar sem henni fannst ekki koma því neitt við að hún hafði keyrt á mótorhjólamanninn. Jú, hún hafði verið að rífast við kærastann sinn, hvað kom það þeim við svosem? Hún svaraði þeim eftir drykklangar þagnir og með semingi. Henni leið ekki vel og skildi ekki afhverju hún mátti ekki bara fara heim eða í það minnsta upp á spítala til að athuga hvort það væri ekki alveg í lagi með hana sjálfa. Fokk, djöfuls fokking fokk sagði hún upphátt til þess að setja punktinn yfir hugsanir sínar. Lögreglumennirnir tveir snéru sér forviða að henni og sögðu báðir í einu "Ha"? Hvað ertu að segja? Hún eldroðnaði þegar hún áttaði sig á hvað hafði hrotið af vörum hennar og afsakaði sig með að hún væri að líða útaf vegna álags. Er ekki bara hægt að ljúka þessu svo ég geti farið upp á spítala, mér líður bara ekki vel, þú skilur!?

Rigningin færðist enn í aukana 

Jac Norðquist

 


Sá Gamli

Hann var á leið heim eftir að hafa skoðað nokkra hesta í gerði skammt frá sveitabænum sem hann ólst upp á. Það var notalegt að finna ilminn af hrossum, taði og tuggunni sem bóndinn hafði sett í trog fyrir hestana. Það var auðvitað algjör óþarfi að setja tuggu í trogið þar sem að sprettan á túnunum var í góðu lagi eftir mildan vetur. Bóndinn hélt hinsvegar svo mikið upp á þessar fallegu skepnur að hann mátti til með að spilla þeim örlítið. Gamli maðurinn spjallaði við bóndann um daginn og veginn og klappaði hrossunum. Hann var of slæmur í mjöðminni til þess að fara á bak auk þess var farið að hellirigna. Það setti að honum hroll og hann ákvað að drífa sig bara heim og kveikja upp í eldstæðinu. Þótt það væri komið vor í loftið var ennþá kaldur garri að norðan. Ansans Íslandslægðirnar hugsaði hann með sér og kvaddi bóndann með virktum og gekk að bílnum sínum.

Honum var alveg sama þótt hann lyktaði af hrossum og taði en skipti samt út stígvélum sínum fyrir mokkasínur áður en hann settist inn í bílinn. Hann vildi ekki skíta út mottuna sem hann hafði þrifið svo vel kvöldið áður.

Þegar hann settist inn í bílinn, fann hann fyrir stuttum en öflugum svima. Þar sem hann hafði fengið hjartaáfall fyrir tveim árum síðan, var hann alltaf á varðbergi gagnvart líkamlegum einkennum af hverju tagi sem er. Hann beið aðeins með það að setja bílinn í gang og fiskaði upp farsímann sinn og lét í sætið við hliðina á sér. Hann tók aftur upp símann og til öryggis, stimplaði hann inn 112 en ýttu ekki á sendingahnappinn, lagði svo símann aftur á farþegasætið.

Sviminn kom ekki aftur svo hann setti bílinn í gang og keyrði af stað. Þegar hann kom svo út á sveitaveginn, fann hann allt í einu lykt af appelsínum, svo megna að hann leit ósjálfrátt í kringum sig í bílnum. Hann mundi alls ekkert eftir því að hafa keypt appelsínur og gleymt þeim í bílnum. Honum fannst meira að segja appelsínur hálf óætar vegna þess að hann átti erfitt með að þola sýruinnihaldið í þeim. Appelsínulyktin hvarf jafn skyndilega og hún hafði komið og hann keyrði áfram eftir fáförnum sveitaveginum. Það hellirigndi og útsýnið út um framrúðuna fór þverrandi. Rúðuþurrkurnar höfðu varla við vatnsflæðinu.´

Skyndilega fékk hann hausverk, svo öflugan að honum varð flökurt, hann greip með hægri hendi um ennið eins og hann ætlaði að þrýsta höfuðverknum inn aftur. Hann stundi hátt, þetta var ekkert eðlilegur hausverkur hugsaði hann og hjartað fór að slá hraðar. Skildi þetta vera heilablóðfall? Hann fór í huga sér yfir einkennalistann sem hann hafði reynt að læra utan af úr einhverjum bæklingi sem hann tók í apótekinu á síðasta ári. Hann fann fyrir miklum doða í hægri hendi og höfuðverkurinn magnaðist um helming. Hann hægði á bílnum og leitað eftir stað til að stöðva bílinn á. Í speglinum sá hann mótorhjól sem var komið óþægilega nærri, hann velti því fyrir sér hvort hann myndi setja mótorhjólamanninn í hættu ef hann stöðvaði of skyndilega svo hann tappaði létt á bremsuna og hægði enn meira ferðina. Hann varð að stoppa því ekki gat hann keyrt bílinn í svona ásigkomulagi.

Hann sveigði út í kantinn og Mótorhjólamaðurinn tók fram úr honum. Hann stöðvaði bílinn og byrjaði að syngja hástöfum. "Vi er røde, vi er hvide".... hann heyrði á þvoglumælginu að það var eitthvað mikið að. Hann ýtti á sendingahnappinn á farsímanum sínum og heyrði í rödd símadömunnar á neyðarlínunni. Hann reyndi að segja eitthvað en kom ekki upp orði. Hann starði út um regnvota rúðuna og sá bíl koma á fullri ferð inn á krossgatnamótin og keyra viðstöðulaust á mótorhjólið.

Hann sá mótorhjólamanninn svífa í boga upp yfir bílinn og fætur hans skullu í framrúðu bílsins og svo endasentist hann áfram, yfir bílinn í götuna bak við hann. Þar hvarf hann úr augsýn. 

Gamli maðurinn greip með dofnu hægri hendinni um bringuna á sér og fann bókstaflega hjartað hamast fyrir innan bringubeinið. Honum sortnaði fyrir augum og hann fann meðvitundina fjara út. Hann gerði lokatilraun til þess að biðja um hjálp í farsímann en heyrði sjálfan sig umla eitthvað óskiljanlegt. Hægri hendi sleppti krampakenndu takinu á bringunni og féll máttlaus niður í kjöltu Gamla mannsins. Röddin í símanum var það síðasta sem hann heyrði í þessu lífi.... halló, halló get ég aðstoðað?  

Jac Norðquist


112

Hún sat bogin í keng við stýrið og hnúarnir lömdu fast á mælaborðið. Hvað í helvíti kom fyrir? Hún var ekki alveg búin að átta sig á atburðum síðustu sekúndna. Keyrði einhver fáviti á mig? Hún beit saman jöxlunum og hætti að berja hnúunum á mælaborðið, af hverju er ég að berja mælaborðið, hugsaði hún hissa?

Hún leit upp og út um brotna framrúðuna. Hún sá bara grasið á enginu hinumegin við veginn. Hún leit bæði til hægri og vinstri en sá ekkert óvenjulegt. Það var jú bíll stopp í kantinum en hann var of langt í burtu til þess að hafa getað keyrt á hana. Hún opnaði varlega hurðina og steig út í grenjandi rigninguna. Gekk svo hægum skrefum fyrir framan bílinn og skoðaði skemmdirnar. Stuðarinn var alveg í klessu og bæði framljósin möskuð. Það var beygla efst á toppnum á bílnum og framrúðan var brotin. Hún horfði hissa á skemmdirnar. Hvað í fjáranum hafði eiginlega gerst? Hún fór smámsaman að ranka úr þessum doða sem hún var í og átti rigningin mikinn hluta í því. Hún þrengdi sér ísköld niður hálsmál hennar og framkallaði kuldaskjálfta. Helvítis fokk, hugsaði hún en fór að líta betur í kringum sig til að reyna að finna helvítis sökudólginn að skemmdunum á bílnum. Þá rak hún augun í klesst mótorhjólið sem lá nánast í hvarfi við vegöxlina. Hún gekk yfir að mótorhjólinu og svipaðist um eftir ökumanni hjólsins en fann hann ekki við hjólið. Ráðvillt horfði hún í kringum sig, hafði hann var labbað í burtu sisvona og ekki hirt um að athuga hvort hún væri stórslösuð í bílnum? Helvítis aumingjar, helvítis karlmenn. Blóðið sauð í henni þegar hún áttaði sig á því hversu mikið hún hataði karlmenn þessa stundina. Hún leit í átt að bílnum þar sem að hún sá móta fyrir manni við stýrið. Sko, ekki datt fíflinu í hug að koma út og aðstoða hana. Allt í einu krossbrá henni við sírenuvæl. Fokk? hvaða dómdagshávaði var þetta? Hún snarsnéri sér og sá að það var sjúkrabíll alveg við bílinn hennar og hann var með vælandi sírenur. Guð sé lof hugsaði hún, loksins einhver að koma að kíkja á mig og athuga hvort ég sé ómeidd. Hún leit niður eftir líkama sínum en það bar ekki á öðru en að hún væri í lagi. Ekkert blóð seytlaði út svo að hún yrði þess vör. Hún horfði á sjúkraflutningamennina rífa upp afturhurðina á sjúkrabílnum og ná í tösku með tólum og tækjum. Þeir þustu svo aftur fyrir bílinn hennar og beygðu sig í hvarf? Ha? Djöfuls tillitsleysi að tékka fyrst á bílnum hennar og kíkja ekki á hana ? Hún var ekki alveg að fatta þessa gaura svo hún gekk yfir til þeirra.

Blóði fraus í æðum hennar þegar hún sá mótorhjólamanninn liggja í götunni og horfa brostum augum upp til himna. Ósjálfrátt leit hún líka upp í grámyglulegan himininn. Þvílíkur dagur til að deyja á laust niður í huga hennar. Hún krosslagði handleggina og setti þumalputta hægri handar upp í sig og nagaði hann varlega. Guð minn góður, guð minn fokking góður, hvað hef ég gert!

 

Einn einn tveir góðan dag get ég aðstoðað?

Það var þungur andadráttur í símanum en enginn svaraði fyrirspurninni. Símadaman spurði aftur og lagði vel við hlustir. Hún var alvön að fá inn símtöl þar sem að viðkomandi var svo illa farinn að hann eða hún gat ekki tjáð sig á skiljanlegan hátt. Hún fékk líka inn fullt af gabbsímtölum og var orðin þjálfuð að greina á milli gerfi stuna og alvöru stuna. Hún reyndi að greina umhverfishljóðin sem best hún gat, meðan hún vann á lyklaborð tölvunnar sinnar. Hún var búin ð setja símtala-rekjarann á og beið núna eftir því að það kæmi rauður punktur á landakortinu í tölvunni. Þetta var símtal úr farsíma og eftir augnablik byrjaði að hellast inn upplýsingar um númerið. Það var skráð á mann fæddan 1939 búsettan í útjaðri borgarinnar. Rauði punkturinn var komminn og blikkaði rólega á skjánum. Hún sendi skilaboð á sjúkrabíl 508 því hann var næstur rauða punktinum.

Sjúkrabíll 508 svarar, við setjum forgangsljós á og verðum á svæði 026 eftir um það bil 2 mínútur.

Andadrátturinn var þagnaður í símanum en símtalið var ekki slitið.

 

Þarna, sagði aðstoðabílstjórinn á sjúkrabíl 508, þarna fyrir aftan bílinn liggur einhver. Þeir stoppuðu sjúkrabílinn og náðu í sjúkratöskurnar aftur í bílinn. Sá yngri var fyrr að manninnum sem lá í götunni. Það vætlaði blóð úr eyrum hans og brostin augun störðu upp í himininn eins og hann væri að rannsaka hvaðan þessi grenjandi rigning kæmi. Sjúkraflutningamaðurinn vann fumlaust að því að fletta mótorhjólajakkanum frá bringu mannsins meðan hinn skorðaði höfuð hans og athugaði hvort að öndunarvegurinn væri opinn. Hann losaði restina af hjálminum frá höfðinu og hélt svo með hanskaklæddri hendinni undir mjúkann mölbrotinn hnakkann á manninum.

Það er staðfest hjartastopp, sagði sá yngri og gerði hjartastuðtækið klárt. Hann stillti það og tengdi díóðurnar á bringu mannsins. Hinn var búinn að setja mjúkan höfuðpúða undir skaddaðann hnakkann og annan undir hálsinn. Ég er klár fyrir stuðtæki sagði hann og sá yngri hleypti á straumskammti. Það fóru veikir kippir um líkama mannsins og þeir biðu nokkur sekúndu brot áður en sá yngri sagði "annar skammtur eftir 3,2,1" og hann hleypti á öðru raflosti. Aftur fóru kippir um líkama mannsins og augu hans rúlluðu í höfðinu. Sjúkraflutningamennirnir héldu niðri í sér andanum.  "Fullur styrkur eftir 3,2,1" og sá yngri hleypti á fullum skammti af rafstuði sem fór eins og elding gegnum hjarta mannsins og herpti það saman. Þegar rafmagnið sleppti takinu, var hjartað eins og hikandi í örfá sekúndubrot en tók svo öflugt slag, og annað.

Við höfum lífsmark sagði sá yngri. Hann lá á hnjánum hjá manninum meðan hinn fór og náði í sjúkrabörurnar í bílinn. Það var ekki fyrr en þá að þeir sáu náföla konuna standa og stara á þá í þögulli örvæntingu. Lifir hann? Spurði hún varlega. Þeir litu báðir á manninn á götunni og sá yngri svaraði "Já já hann á alveg eftir að meika það" En hugsun hans var ekki á sama máli. Hann myndi tæpast ná inn á deild áður en hann væri "Flatlínu sjúklingur".

Þeir báru hann inn í sjúkrabílinn í sama mund og lögreglan og hinn sjúkrabíllinn komu á vettvang. Lögreglumaður gekk að konunni meðan annar skoðaði slysstaðinn. Það veitti enginn bílnum í kantinum neina sérstaka athygli.

Jac Norðquist  


Brostin augu

Á leið heim úr vinnunni, keyrði ég mótorhjólið frekar varlega. Það hellirigndi og mér var skítkalt þrátt fyrir að vera í regnbuxum og þykkri peysu undir mótorhjólajakkanum. Það eru um það bil 20 kílómetrar frá vinnustaðnum mínum og heim. Ég keyri oftast "bakleiðina" því að það er að öllu jöfnu minni umferð á þeirri leið. Ég er samt ekki viss um að hún sé neitt styttri en alveg pottþétt fljótfarnari.

Ég byrjaði aðeins að skjálfa því að kuldinn smaug inn gegnum þykkan jakkann og framkallaði hroll sem hríslaðist um kroppinn minn. Ég fór að hugsa um hvað væri í matinn og hvort konan mín hefði tekið út fisk úr frystiskápnum. Svo beindist hugsunin að litlu dóttur minni sem var rétt nýorðin 6 mánaða gömul. Ég fór að brosa gegnum kuldann þegar ég sá brosmilt falleg andlit hennar fyrir mér.

Umferðin gekk alveg ágætlega og mér miðaði vel áfram. Klukkan var rétt um hálf fjögur og það leit ekkert út fyrir að rigningin stytti upp í bráð og gott ef að hún var ekki að aukast. Helvítis leiðindaveður alltaf hreint. Ég var farinn að þrá sól og sumaryl. Áður en ég lagði af stað úr vinnunni, lá ég á netinu og skoðaði sólarlandaferðir á spottprís. Ekki það að ég hefði efni á því að fara í sólarlandaferð, spottprís eður ei. Það var bara svo notalegt að láta sig dreyma aðeins.

Ég fór að spá í síðustu ferð okkar hjóna á sólarströnd fyrir tæpum tveim árum síðan. Notalegheitin við sundlaugarbakkann og 40°c hiti. Hrein dásemd. 

Þessi hugsun náði samt ekkert að hlýja mér þar sem ég sat í grenjandi rigningunni á mótorhjólinu mínu á Dönskum sveitaveginum. Það styttist heim í hlýjuna.

 

Þú ert helvítis aumingi og ræfill, ég hata þig, ég bara helvítis djöfulsins hata þig og ógeðslega helvítis andlitið á þér og ég vil aldrei fokking sjá þig aftur helvítis aumingja viðbjóðurinn þinn !!!

Hún lamdi hnefunum fast í bringuna á manninum sem hafði rétt verið að viðurkenna fyrir henni að hann hefði haldið framhjá henni. Helvítis tussan þín hættu þessum barsmíðum, hann sló hana með flötum lófa á hægra eyrað hennar. Svona hættu hvæsti hann aftur og hrinti henni afturábak í átt að útidyrunum, ég hélt framhjá þér því þú ert bara fokking sækó-tík og átt ekki annað skilið tussan þín. Komdu þér út. Hann var farinn að öskra og hún fann ramma bjórlyktina af honum. Klukkan var rétt að verða hálf fjögur á fimmtudegi og hann var orðinn vel í því. Helvítis drykkjurútur.

Hann hélt áfram að hrinda henni aftur ábak þar til hnakkinn á henni skall á útihurðinni. Drullaðu þér héðan út þurrkuntan þín. Það er gersamlega vonlaust að ríða þér svo hverju áttu von á annað en maður haldi smá framhjá, ha , segðu mér það? Öskraði hann!

Hún titraði svo mikið af hræðslu og reiði að hún kom ekki upp orði. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem hún hafði rifist svona heiftarlega við nokkurn. Hún fann fyrir því að hafa ekki orðaforða upp á neitt annað en "Fokk" og "Helvíti"! Meðan hann var að öskra ókvæðisorðum á hana, fór hún að leita í huganum að einhverju kjarnyrtari að segja.

Helvítis tittlingurinn á þér er eins og á fokking vansköpuðu svíni, þú ert illa lyktandi svínslegur viðbjóður helvítis auminginn þinn!

Hann sló hana svo fast að hún steinlá. Lyppaðist bara niður við útihurðina og lá þar meðan hann ruddist aftur inn í húsið og náði í jakkann hennar og veskið. Hann tosaði meðvitundarlausa konuna frá hurðinni og opnaði hana. Dró síðan konuna út á stéttina fyrir framan húsið og henti jakkanum og veskinu yfir hana. Helvítis tussa hvæsti hann og sparkaði fast í síðuna á henni. Hún umlaði í meðvitundarleysinu og herptist saman. Hann rauk inn og skellti hurðinni. Helvítis tíkur, helvítis kvenfólk allar saman. Hann opnaði annan bjór og settist fyrir framan sjónvarpið og stillti á fótbolta. Djöfull var þetta allt henni að kenna. Andskotann var hún svo að kíkja í ruslið á baðinu  og finna smokkinn? Hver í fjandanum rótar í baðherbergisruslinu? Aldrei myndi hann kafa eitthvað ofan í ruslafötur á baðherbergjum. Helvítis fokking tíkin. Hann kreisti tóma bjórdósina og öskraði.

Rigningin vakti hana smámsaman og hún reyndi að standa upp. Skerandi stingurinn í síðunni fékk hana til þess að beygja sig í keng, úff. Hún varð að draga andann grunnt vegna verkjarins. Titrandi tók hún upp jakkann og veskið og fiskaði bíllyklana sína upp úr því. Hún leit snöggt í átt að lokaðri útihurðinni og safnaði saman stórri slummu af hráka í munninn og lét svo vaða á hurðina. Helvíts aumingi stundi hún upp og hrækti aftur.

Hún setti bílinn í gang og hefði reykspólað í burtu ef hún hefði kunnað það. Í staðinn snuðaði hún á kúplingunni í 7000 snúningum og ók löturhægt í burtu. Meira að segja bíllinn var á móti henni.

Hún reyndi að slaka á en titringurinn hætti ekki og augun fylltust af reiðitárum. Niðurlægingin helltist yfir hana og hnúarnir hvítnuðu á stýrinu. Bíllinn var kominn á ferð núna og hún gíraði hann upp. Hún var ekki viss um hvert hún átti að fara en varð bara að komast eitthvert í skjól svo hún gæti grátið og fengið smá útrás fyrir reiðina og gríðarleg vonbrigðin yfir smokkafundinum. Henni hafði svosem lengi grunað að hann væri að halda framhjá en alltaf þegar hún spurði hvort hann væri henni ekki trúr og tryggur, fór hann alltaf að hlægja og sagði að það væri hann svo sannarlega. Hann liti ekki einu sinni á aðrar konur hvað þá að hann væri eitthvað að sækjast eftir því að halda framhjá henni. Lyga djöfuls mörðuinn.

 

Ég reyndi að hrista af mér drungann og kuldann og hægði aðeins á mótorhjólinu þegar bíllinn fyrir framan mig bremsaði varlega. Það var greinilega gamall maður undir stýri og honum fannst óþægilegt að keyra í grenjandi rigningunni. Ég hægði meira ferðina og fór að pirrast svolítið yfir því hversu hægt sá gamli keyrði. Það var allt í lagi að fara varlega en þetta var bara of hægt að mínu mati. Ég fór að líta framar á veginn og spáði í að taka frammúr þeim gamla. Mér gafst ekki tækifæri til þess því að hann gaf allt í einu stefnuljós út í kantinn og stoppaði þar. Ég bölvaði og jók svo hraðann til þess að komast upp í eðlilegan ökuhraða á sveitaveginum og framúr gamla karlinum. Ég tók snyrtilega framúr honum og  leit svo í speglana til að fylgjast með því hvað sá gamli myndi gera.

Ég var enn að horfa í speglana þegar ég keyrði inn á krossgötu-gatnamótin.

Ég sá aldrei grátandi konuna sem keyrði yfir stöðvunarskilduna án þess að stoppa og inn í hliðina á mótorhjólinu mínu.

Ég hvorki fann höggið af bílnum eða höggið þegar líkami minn skall í götuna eftir að hafa rúllað í stórum boga yfir bíl konunnar. Hjálmurinn minn brotnaði í sundur við skellinn og flettist af mér eins og hann hefði verið eggjaskurn.

Ég fann ekki blóðið leka úr eyrum mínum eða nefi og ég sá ekki grámyglulegan himininn þar sem ég lá á bakinu í vegarkantinum.

Ég reyndi að blikka augunum því ég fann rigninguna skella á hvítunni. Ég gat ekki blikkað.

Ég fann engan sársauka.

Ég heyrði ekkert nema hjarta mitt slá.

Dúmp dúmp

Dúmp dúmp

Dúmp

 

Dúmp

Ég heyrði hjartað mitt hætta að slá og meðvitundin skreið í burtu eins og þegar maður gengst undir svæfingu á spítala.

Augu mín horfðu brostin upp í himininn.

 

Jac Norðquist

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband